Þetta er bara áfangasigur.

Greinar

Margir kartöflubændur og kaupmenn eru nú að feta í fótspor Hagkaups og Jens Gíslasonar á Jaðri og hefja beina sölu kartaflna án milligöngu hinnar illræmdu Grænmetisverzlunar landbúnaðarins. Eiga neytendur því í mörgum verzlunum kost á ódýrari kartöflum en ella.

Mikilvægt er, að neytendur sýni nú samstöðu og beini viðskiptum sínum til aðila, sem verzla utan hins gamla einokunarkerfis. Þeir kaupi kartöflur, sem ekki eru á vegum Grænmetisverzlunarinnar, alveg eins og þeir kaupi egg og kjúklinga, sem ekki eru á vegum Íseggs og Ísfugls.

Neytendur hafa af þessu strax beinan hag, því að kartöflur Jens í Hagkaupi eru 14%. ódýrari en kartöflur frá Grænmetisverzluninni. Um leið gera þeir lífið léttara hjá kartöflubónda, sem hefur með framtaki sínu tekið tillit til hinna oft gleymdu hagsmuna neytenda.

Þetta geta neytendur raunar gert á fleiri sviðum. Þeir geta líka verðlaunað stóru eggjabændurna, sem hafa haldið niðri eggjaverði á undanförnum árum. Neytendur geta keypt egg frá þeim í stað þess að kaupa egg frá gæludýri Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Ár þetta verður minnisvert í verzlunarsögu landsins. Í tveimur áföngum hefur með harðfylgi tekizt að rjúfa kartöflueinokun Grænmetisverzlunar landbúnaðarins, fyrst á innfluttum kartöflum og raunar öðru grænmeti í vor og síðan á innlendum kartöflum núna.

Um leið og neytendur fagna þessum áfanga er rétt að muna, að tiltölulega fáir einstaklingar í stétt heildsala, kaupmanna og bænda ruddu braut hinu aukna verzlunarfrelsi. Kerfið hopaði undan áhlaupi þeirra, en ekki af því að neytendur væru spurðir ráða.

Neytendur hafa fengið áfangasigur upp í fangið, en engan endanlegan sigur. Því fer enn fjarri, að kartöfluneytendur hér á landi njóti sama réttar og kartöfluneytendur annarra landa. Baráttunni um verzlunarfrelsið er ekki lokið og áfram mun reyna á samstöðu neytenda.

Þeir munu væntanlega geta á næstunni valið um fleiri stærðarflokka kartaflna, fleiri afbrigði þeirra og fleiri framleiðendur. Jafnframt geta þeir væntanlega forðazt kartöflur, sem úðaðar hafa verið thiabendazoli til að auka geymsluþolið fram eftir vetri.

En ný vandamál munu koma upp, þegar haustneyzlu lýkur og íslenzku kartöflurnar hætta að vera nýjar. Upp úr áramótum hlýtur að koma að þeim tímamótum, að gamlar, íslenzkar kartöflur verða orðnar lakari en ný uppskera frá öðrum löndum. Hver verður réttur neytenda þá?

Talið er, að í haust verði til tveggja ára birgðir af íslenzkum kartöflum. Spyrja má, hvaða ábyrgð neytendur beri á því ástandi. Og enn frekar, hver hafi rétt til að neita þeim um nýjar kartöflur á ofanverðum næsta vetri. Á Framleiðsluráð þá að fá að kúga?

Skylt vandamál kom upp í sumar, þegar fyrstu íslenzku kartöflurnar komu á markað og kostuðu þá 56,75 krónur. Þá vildu landbúnaðarráðuneytið og Framleiðsluráð hindra neytendur í að geta valið milli þessara kartaflna og innfluttra á 21 krónu kílóið.

Baráttunni fyrir rétti neytenda lýkur ekki fyrr en þeir geta á öllum árstímum valið milli nýrra kartaflna og gamalla, dýrra og ódýrra, úðaðra og ekki úðaðra, frá mörgum innlendum og erlendum framleiðendum. Og hið sama gildir um rétt neytenda á öðrum sviðum matvælakaupa.

Jónas Kristjánsson

DV