Þetta er ykkur að kenna

Greinar

Kosningabaráttan var stutt, tæpar þrjár vikur, og snerist lítið um kosningaloforð, sem ekki er ætlunin að efna. Þar með eru taldir kostir kosningabaráttunar, sem var bæði dýr og leiðinleg, snauð af nokkru því, sem gæti vakið kjósendur til eldmóðs eða einbeitingar.

Steingrímur Hermannsson reyndi að flytja kosningabaráttuna suður á Rínarbakka með að gefa í kyn, að aðrir hefðu landráð í huga með ráðagerðum um inngöngu í Evrópubandalagið. Þetta tókst ekki, af því að hinir sögðust vera einangrunarsinnaðri en Framsókn.

Það er hins vegar fróðlegt mat á einangrunarstefnu kjósenda, að allir stjórnmálaflokkar auglýstu vanþóknun sína á Evrópubandalaginu og sumir fordæmdu jafnvel Evrópska efnahagssvæðið, sem Evrópubandalagið og Fríverzlunarsamtökin eru að reyna að koma á fót.

Yfirleitt var í kosningabaráttunni ekki gert ráð fyrir mikilli greind kjósenda. Lengst gekk Ólafur Ragnar Grímssonm, sem hélt uppteknum hætti, boðaði blaðamannafundi og hellti rugli og beinum ósannindum um fjármál ríkisins ofan í sjónvarpsfréttamenn.

Dæmi Ólafs sýnir, að enn er ríkt í stjórnmálamönnum, að þeir geti slegið fram hverju sem er, studdu marklausum tölum, töflum og línuritum, þótt fullyrðingar þeirra séu jafnóðum slegnar í kaf af töluglöggu fólki, sem ekki hefur hagsmuna að gæta í kosningabaráttunni.

Það er rétt hjá burtreiðamönnum kosninganna, að fólk lætur sig lítt varða um efniskjarna, en hefur þeim mun meiri áhuga á ýmsum aukaatriðum, en mest þó á þröngt afmörkuðum sérhagsmunum á borð við gat í fjall, lengdan hafnargarð og ríkisábyrgð á fjárglæfrum.

Pólitískur vanþroski er mikill hér á landi, svo sem endurspeglast í kosningabaráttunni. Utan Reykjavíkursvæðisins er því miður enn þann dag í dag algengast, að fólk líti á stjórnmál sem aðferð til að komast yfir peninga úr sameiginlegum sjóðum og dreifa herfanginu.

Nýju flokkarnir hafa ekki brotið hina hefðbundnu ramma, heldur hafa þeir tilhneigingu til að yfirbjóða gömlu flokkanna í óraunsæi og rugli. Þeir virðast ekki munu hafa árangur sem erfiði, enda ættu fimm flokkar að nægja utan um næsta óáþreifanlegan mismun.

Áhugi kjósenda á þröngum sérhagsmunum fer saman við jafnaðargeð þeirra andspænis spillingu stjórnmálamanna, sem nota sameiginlega sjóði í auknum mæli til að greiða kosningabaráttu flokka sinna, til að bæta eigin fjárhagsstöðu og til að hygla gælufyrirtækjum.

Kvennalistinn er eini fimmflokkurinn, sem ekki er spilltur, en hefur svo að öðru leyti á móti sér að vera með óvenju afturhaldshneigða stefnu. Þetta má orða svo, að ástæða sé til að óttast, að gömlu flokkarnir efni ekki loforð sín og að Kvennalistinn efni loforð sín.

Eftir kosningar verður ekki auðvelt að tína aftur saman þræðina. Samtals námu kosningavíxlar lánsfjárlaga þrettán milljöðrum ofan á þann tólf milljarða halla, sem þar var áður fyrir. Samtals nam seðalprentun fjármálaráðherra níu milljörðum króna á kosningavertíðinni.

Þessir kosningavíxlar munu leiða til verðbólgu og vaxtahækkana eftir kosningar, sama hvaða flokkar verða við stjórn, og hvað sem hinir sömu flokkar fullyrtu fyrir kosningar. Það verður mikið verk að basla saman nýrri þjóðarsátt, þegar víxlarnir gjaldfalla.

Það er hart aðgöngu, að kjósendur skuli vera svo skyni skroppnir, að kosningabarátta skuli þurfa að vera með þeim hætti, sem raun hefur orðið á að þessu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV