Oddvitar ríkisstjórnarinnar hafa fundið út, að 30% eða 44% forgjafir dugi ekki til að koma í veg fyrir, að lögin um fjölmiðla verði felld í þjóðaratkvæði í ágúst. Þess vegna hafa þeir ákveðið að hindra atkvæðagreiðsluna með því að draga lögin til baka og leggja þau síðan aftur fram sem ný.
Í stað þess að sumarþing ákveði, hvernig þjóðaratkvæðið fari fram, á það með einnar nætur fyrirvara að taka fyrir nýtt lagafrumvarp, sem að 95% leyti er sama frumvarpið. Þetta er ekki bara tveggja manna æði, heldur tveggja þingflokka æði, því að þingflokkar stjórnarinnar hafa samþykkt aðferðina.
Samkvæmt fyrri reynslu er líklegt, að forseti Íslands vísi nýjum lögum til þjóðarinnar, þar sem þau eru 95% eins og fyrri lögin. Þá getur ríkisstjórnin enn breytt lögunum um 5% og síðan haldið skrípaleiknum áfram, þangað til lögin verða orðin nógu mikið breytt til að forsetinn staðfesti þau.
Hver umferð í skrípaleiknum, sem tveir þingflokkar hafa efnt til, getur tekið tvo mánuði. Á meðan getur þjóðin velt fyrir sér, hvers vegna er svona mikilvægt, að hún fái ekki að tjá sig í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvers vegna tveir þingflokkar haga sér eins og þeir séu týndir og tröllum gefnir.
Ef ekki er ætlunin, að lögin taki gildi fyrr en eftir þrjú ár, eftir næstu alþingiskosningar, er eðlilegra að draga bara hin illræmdu lög til baka, henda ekki inn nýrri útgáfu þeirra, heldur hefja viðræður við stjórnarandstöðuna um, hvernig ný lög geti litið út. Nægur tími er til stefnu.
Undarleg aðferðafræði felst í að koma aftur með frumvarpið og boða afgreiðslu þess á nokkrum dögum og boða jafnframt samráð eftir afgreiðslu þess. Hvers vegna þarf samráð við stjórnarandstöðu eftir að sama frumvarpið hefur í tvígang verið keyrt yfir hana og einu sinni yfir þjóðina í heild?
Trikkið í aðferðinni er, að eftir þrjú ár verða almennar alþingiskosningar um þau mál, sem þá verða efst á baugi. Þær verða aldrei eins máls atkvæðagreiðslur og allra sízt um mál, sem voru í sviðsljósinu fyrir þremur árum. Kosningar eftir þrjú ár koma ekki í stað þjóðaratkvæðagreiðslu nú.
Svona bragðvísi stunda pólitíkusar ekki nema þeir hafi orðið viðskila við siðaðra manna hætti. Og þetta er ekki vandi tveggja manna, sem hafa verið of lengi í ráðherraembættum, heldur vandi heilla tveggja þingflokka, sem hafa misst fótanna í blindu ofstæki og algerum skorti á mannasiðum.
Forseti Íslands er ekki ábyrgur fyrir skrípaleik, sem felst í að draga lög til baka til að hindra þjóðaratkvæði og leggja þau síðan nánast óbreytt fram sem nýtt frumvarp.
Jónas Kristjánsson
DV