Þéttum byggðina.

Greinar

Íslenzka smábyggðastefnan hefur verið rekin af krafti í aldarfjórðung, meira eða minna á vegum allra stjórnmálaflokkanna. Hún miðar að því að láta fólk búa áfram á sínum stöðum, svo og afkomendur þess í framtíðinni.

Með þessari stefnu var í megindráttum stöðvaður flutningur þjóðarinnar á mölina, sem einkennt hafði fyrstu sex áratugi aldarinnar. Litið var á fyrri lífsháttaröskun sem félagslegt vandamál, er víkja ætti fyrir jafnvægi.

Þetta er eitt af tilbúnu vandamálunum. Allur þorri þéttbýlisfólks er fæddur í strjálbýli eða á foreldra, sem eru fæddir í strjálbýli. Þannig hefur þorri þjóðarinnar þegar sætt röskuninni, sem nú er reynt að hindra.

Þar á ofan hafa aldrei verið flutt nein sannfærandi rök fyrir því, að jafnvægi sé betra en röskun. Því er oft haldið fram, að framfaraspor mannkyns byggist að meira eða minna leyti á röskun og svörun manna við henni.

Þetta skiptir máli, af því að baráttan gegn búseturöskun er langsamlega dýrasta starfsemi, sem rekin er hér á landi. Hún er kjarni fjárlaga og lánsfjárlaga, verðjöfnunar, lánsfjárútvegunar og sjóðakerfis.

Allt þetta fé, sem nemur mörgum Kröfluverum á hverju ári, verður ekki til úr engu, heldur er það tekið frá öðrum þörfum einstaklinga og samfélags. Smábyggðastefnan hindrar fjármögnun ótal þarfra aðgerða í landi okkar.

Miklu nær væri að snúa dæminu við og hvetja fólk til að búa þar, sem aðstæður eru hagstæðastar fyrir það og þjóðfélagið í heild. Flutningskostnaður er fljótur að sparast, svo sem sýndi reynsla fyrri hluta aldarinnar.

Góð hafnaraðstaða er eitt af því, sem máli skiptir, samhliða nálægð við fiskimið. Þess vegna þurfum við öflug sjávarpláss í öllum landshlutum, en ekki svo mörg, að flotinn sé of stór fyrir fiskistofnana.

Smábyggðastefna, sem heimtar skuttogara í hvert sjávarpláss, kostar samfélagið gífurlegar fjárhæðir og sogar kraft frá hinum öflugari stöðum, sem hafa betri aðstöðu til að stunda arðbæra útgerð í þágu þjóðarhags.

Annað mikilvægt atriði er ódýr jarðhiti. Olía og raunar einnig rafmagn eru og verða í svo háu verði, að rétt er að soga fólk til staða, sem hafa komið sér upp tiltölulega ódýrum hitaveitum til margs konar nota.

Jarðhitinn gagnar ekki aðeins til húshitunar, heldur einnig til ylræktar, fiskiræktar, efnaiðnaðar og raforkuframleiðslu. Að öllu þessu leyti hljóta Reykjavík og Reykjanes að teljast vænleg til búsetu.

Þriðja mikilvæga atriðið er innlendur markaður. Mjólk, egg og grænmeti á auðvitað að framleiða sem næst þéttbýli til að stytta samgönguleiðir milli seljenda og kaupenda. Þannig þarf jafnvel landbúnaðurinn að færa sig nær þéttbýli.

Fjórða atriðið er þjónustan, sem þegar er til í þéttbýlinu og er því meiri sem þéttbýlið er meira. Þjónustan og markaðurinn benda eindregið á Reykjavíkursvæðið annars vegar og nokkra öfluga útgerðarstaði hins vegar.

Ef stefna byggðaþéttingar leysti smábyggðastefnu af hólmi mundi sparast ógrynni fjár, sem nú fer til ímyndaðs vandamáls. Það mundi renna til raunverulegra þarfa þjóðfélags, sem vill ganga rösklega fram eftir vegi.

Jónas Kristjánsson.

DV