Látið ekki ljúga að ykkur. Íslendingar eru spilltir, þótt þeir láti ekki mútast. Spilling Íslendinga mælist ekki með aðferðum Transparency, lýsir sér í öðru. Hún lýsir sér í sveigjanleika á kostnað staðfestu, félagslegum rétttrúnaði yfir guðs og manna lögum, endalausum útúrsnúningum, Framsókn, undirgefni við hættuleg spakmæli á borð við: Oft má satt kyrrt liggja. Hún er spilling þjóðar, sem aldrei hefur horfzt í augu við breytt þjóðskipulag og lét gefa sér lýðræði að utan. Þetta er hjartahrein spilling, sem fyrr á öldum hélt lífi í örbirgðarfólki, er gaf kóngi hest og fékk borgað fyrir.