Þinghald á að lengja.

Greinar

Nýlega krafðist stjórnarandstaðan þess, að alþingi yrði kallað saman í byrjun þessa mánaðar. Þetta er eðlilegt framhald af fyrri kröfu hennar um sumarþing, sem mikill hluti þingflokks sjálfstæðismanna studdi.

Ríkisstjórnin vísaði hins vegar þessum kröfum á bug í bæði skiptin. Hafði hún uppi margvísleg mótrök. Ný stjórn þyrfti starfsfrið. Og þinghald í september kæmi í veg fyrir, að fjárlagaframvarp yrði til við byrjun þings, svo sem stjórnarskráin mælir fyrir.

Ljóst er, að álit þingmanna og almennings skiptist mjög í tvö horn. Allir ættu þó að vera sammála um, að slæmt sé að ekki gildi fastmótaðar reglur um samkomutíma alþingis. Það eigi ekki að vera geðþáttaákvörðun ríkisstjórnar, hvort þing sé kallað saman eða ekki.

Í stjórnarskrá lýðveldisins segir, að “reglulegt alþingi skal saman koma ár hvert hinn 15. dag febrúarmánaðar eða næsta virkan dag, ef helgidagur er, hafi forseti lýðveldisins ekki tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu”.

Engin ákvæði eru um lengd þingtímans önnur en þau að “forseti stefnir saman alþingi ár hvert og ákveður hvenær því skuli slitið”. Forseti getur hins vegar kvatt alþingi til aukafunda þegar nauðsynlegt er.

Ekki er fjallað um það í stjórnarskránni hvernig haga skuli málum, þegar þingkosningar eru á óvenjulegum tíma, svo sem var á þessu ári.

Sú hefð hefur mótazt á undanförnum áratugum, að þing er kallað saman 10. október ár hvert og stendur með hléum í sjö mánuði eða fram í maí. En nú hefur alþingi ekki setið síðan í mars.

Eina stjórnarskrárbundna skylda ríkisstjórnarinnar er að leggja frumvarp til fjárlaga fyrir þingið, þegar það er saman komið. Hefur það verið skilið svo, að frumvarpið skuli liggja frammi í upphafi þings.

Meðan þjóðfélagið var einfaldara í sniðum og þingmennska var hliðarstarf flestra, ef ekki allra þingmanna, var ekki óeðlilegt, að þinghald væri stutt. Nú er svo komið, að þingmennska er aðalstarf, launað allt árið. Og óneitanlega eru þingstörf flóknari en áður var.

Af þeim ástæðum sýnist það vera tímaskekkja að binda þinghald við sjö mánuði og veita þingmönnum fimm mánaða sumarleyfi, svo ekki sé talað um sjö mánaða leyfi eins og er á þessu ári.

Þau rök eru einnig þung á metunum, að í togstreitu framkvæmdavalds annars vegar og löggjafar- og fjárveitingavalds hins vegar eigi hið síðarnefnda, það er alþingi, undir högg að sækja.

Ríkisstjórnin, stjórnarráðið, embættismennirnir, – framkvæmdavaldið í heild sölsar stöðugt undir sig aukin völd og á auðveldara með það, þegar þinghaldið takmarkast við vetrarmánuðina.

Ef þjóðin vill hamla gegn þessum breytingum og reyna að stuðla að virkara lýðræði með jafnara vægi milli valdaþátta, þá er ljóst, að samkomutíma alþingis verður að lengja og hætta misbeitingu bráðabirgðalaga.

Samkomutími þingsins á ekki að vera þrætuepli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnin á ekki að hafa það í hendi sér, heldur eiga að vera fastar reglur um slíkt. Og til eflingar þingræðinu er rétt að lengja þingið.

Jónas Kristjánsson.

DV