Þingmenn á villigötum.

Greinar

Lýðræði er langskásta þjóðskipulag, sem upp hefur verið fundið. Það er eina skipanin, sem felur í sér verulega endurnýjunarhæfni. Það er eina ræðið, sem gerir byltingar og kollsteypur óþarfar, af því að það felur í sér hægfara síbyltingu.

Íslendingar geta hrósað happi að vera í hópi um það bil 25 lýðræðisríkja í heimi 150 ríkja heims. Það eru sérstök forréttindi að fá að búa við sæmileg mannréttindi, dálítið frelsi og töluverðan jöfnuð með borgurum ríkisins.

Hjá sumum lýðræðisþjóðum kristallast lýðræðið í kjöri forseta. Hjá öðrum kristallast það í kjöri þings, sem síðan velur þjóðinni ríkisstjórn. Við búum við síðara kerfið, sem virðist nokkurn veginn jafn gjaldgengt og hið fyrra.

Eigi að síður er lýðræði okkar ekki eins virkt og það ætti að vera. Við kjósum fulltrúa okkar með hangandi hendi og bölvum ýmist í hljóði eða upphátt yfir því, að í rauninni sé ekki um neitt að velja. “Þeir bregðast allir,” segjum við.

Stjórnmálin minna á vængjahurðir hótela. Flokkarnir eru ýmist úti eða inni. Utan stjórnar stunda þeir ábyrgðarlaust lýðskrum, en innan stjórnar ábyrgðarfull íhaldsúrræði. Að baki mismunandi kenninga eru fjórir eins flokkar.

Hvassviðrin á alþingi, sem síðan enduróma í fjölmiðlum, eru að töluverðu leyti marklausar leiksýningar, þar sem leikararnir skipta léttilega um hlutverk við stjórnarbreytingar. Enda líta þeir á sig sem lífsreynda atvinnumenn.

Einn bezti kostur íslenzkra þingmanna er, að þeir eru ekki fjárhagslega spilltir. Mútuþægni hefur blessunarlega aldrei orðið plagsiður hér á landi, þótt hún hafi lengi tíðkazt víða erlendis, jafnvel í lýðræðisríkjum.

Með þessum orðum er ekki verið að hreinsa íslenzka stjórnmálamenn af fjármálalegu misferli. Því miður felst starf þeirra í reynd að töluverðu leyti í misferli, þótt þeir séu yfirleitt ekki að reyna að auðgast sjálfir.

Íslenzkir stjórnmálamenn eru önnum kafnir við að skipuleggja og millifæra, gefa fé og lána, niðurgreiða og bæta upp, ríkisstyrkja og -ábyrgjast, veita leyfi og ráða fólk. Það er eins og þeir haldi sig vera framkvæmdastjóra fyrirtækis.

Sumir þingmenn eru ráðherrar. Aðrir sitja í bankaráðum og sjóðastjórnum. Enn aðrir sitja í nefndum, sem vasast í að stjórna hlutum, þótt það sé verkefni, sem er sízt við hæfi nefnda. Og allir eru þeir með þessu að brenna peningum.

Ekki verður hjá því komizt, að sumir stjórnmálamenn séu ráðherrar. Að öðru leyti ættu þeir að venja sig af því að vera með puttana ofan í öllu, því að það er yfirleitt til tjóns. Í staðinn ættu þeir að vanda sig betur við smíði laga.

Árangur athafna stjórnmálamanna er einkennilegt hagkerfi, þar sem sjávarútvegur er ekki rekinn, heldur reiknaður á núll, – þar sem landbúnaður trónir efst í gulltryggðum reikningsstóli, – þar sem iðnþróun er nánast bönnuð í raun.

Árangurinn felst líka í einokunarstofnunum, sem kasta tómötum á haugana, – ríkisstyrktum hallærisfyrirtækjum, sem bráðum verða ríkisrekin – og í endalausri röð opinberra bitlinga handa flokksbræðrum, vinum og vandamönnum.

Þegar ástandið er orðið þannig, að hálf þjóðin afneitar flokkunum samkvæmt skoðanakönnunum, er orðið tímabært fyrir stjórnmálamenn að hætta að kenna fjölmiðlum um lánleysi sitt og byrja að haga sér eins og stjórnmálamenn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið