Þingmenn eru ábyrgir

Greinar

Stóra fréttin í aðild okkar að fjöldamorðum og stríðsglæpum Bandaríkjanna í Írak, er, að tveir menn ákváðu hana upp á sitt eindæmi. Á upplognum forsendum gerðu þeir Ísland í fyrsta skipti að stríðsaðila, þótt margar stórþjóðir neituðu að taka þátt í þeirri skelfingu, sem nú er öllum sýnileg.

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ákváðu einir, að Ísland tæki þátt í þessu ógeðslega stríði. Þeir spurðu ekki neinn, ekki þingflokka sína, ekki utanríkismálanefnd, ekki alþingi. Þeir fóru bara í stríð, þar sem 100.000 óbreyttir borgarar hafa þegar verið drepnir samkvæmt læknisfræðilegri rannsókn.

Næststærsta fréttin er, að þessir tveir menn og liðsmenn þeirra hafa ekki breytt skoðunum sínum, meðan sannleikurinn hefur smám saman að vera að koma í ljós. Hann er sá, að alls engin uppbygging er í Írak, heldur er ástandið þar verra en það var á valdatíma hins illræmda leiðtoga Saddam Hussein.

Spánverjar hafa vikið af hólmi og Póllendingar eru á útleið. Danmörk og Ítalía eru ein eftir af Evrópuríkjum, sem menn þekkja almennt af hinum svonefndu staðföstu ríkjum, er gáfu krossferð trúarofstækismannanna George W. Bush og Tony Blair evrópskan gæðastimpil. Hin eru vasaríki á fjarlægum eyjum.

Í hádeginu á sunnudag virtist þingflokksformaður Framsóknar vera að skipta um skoðun á þessu máli. Rækilega var tekið í lurginn á honum, svo að hann var á mánudaginn aftur kominn í stuðningslið fjöldamorða og stríðsglæpa. Eftir þann dag eru þingflokkar Davíðs og Halldórs í húsi George W. Bush.

Allar fréttir af stríðinu gegn Írak segja okkur, að hafi það verið misráðið í upphafi, er það enn fáránlegra núna, þegar menn hafa séð gegnum blekkingarvefinn. Það er glæpsamlegt að styðja stríð, þar sem bandarískir vitfirringar fara hús úr húsi í Fallúja og víðar til að drepa óbreytta borgara.

Engin uppbygging á sér stað í Írak, þótt Halldór Ásgrímsson virðist trúa því. Hann trúir öllu, sem bandaríska stjórnin segir hverju sinni. Hann getur ekki sakað önnur pólitísk öfl á Íslandi um að tala um fortíðina og vera ekki til viðtals um núverandi ástand í Írak, sem Bandaríkin ein framleiddu.

Ljóst er, að Davíð Oddsson hefur ekki batnað í skapinu við að fara í uppskurð. Á hinu háa alþingi sagði hann þá vera afturhaldskommatitti, sem eru á móti stríðinu. Það eru rök, sem hæfa vel þingmannaliði Sjálfstæðisflokksins, sem ekki hefur æmt eða skræmt, enda almennt andvígt mannréttindum.

Umræðan á alþingi á mánudaginn hefur þó skýrt málin á þann veg, að þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks standa heils hugar að bandarískum fólskuverkum í Írak.

Jónas Kristjánsson

DV