Ríkisstjórnin hyggst halda Alþingi opnu fram eftir mánuðinum, þótt þing verði rofið. Jóhanna Sigurðardóttir segir svo mörg mál bíða afgreiðslu, að ekki sé hægt að hætta fyrr. Nefnir hún sérstaklega lög til stuðnings heimilum og fyrirtækjum í kreppunni. Ekkert er svo sem við því að segja, að þingmenn vinni meira en þeim er ljúft. Kosningabarátta þarf ekki að taka langan tíma, ef flokkarnir eru sammála um stutta baráttu. Langur slagur verður fljótt harla leiðinlegur. Flestir þingmenn eru hvort sem er komnir í harðan slag. Þess munu því miður sjást aukin merki í þingstörfunum.