Þjáðst í þrengslum

Punktar

Þegar ég var ungur, hafði ég ekkert fyrir því að sitja um borð í flugvélum. Óþægindi þröngra sæta voru yfirstíganlegur þröskuldur að furðum veraldarinnar. Núna kvíði ég fyrir þrengslum í flugvélum og á flugvöllum og læt tilefni til ferðalaga úr hendi sleppa. Erlendar fréttir herma, að sumt fólk bugist andlega og líkamlega af flugferðum og gangi jafnvel af göflunum um borð. Einn versti vandinn er skortur á fótaplássi, ekki sízt þegar sætið fyrir framan er sett í öftustu stöðu. Nú segir Associated Press frá því, að 1000 eintök hafi selzt af handhægum plasthlut, sem kemur í veg fyrir, að sætinu fyrir framan sé hallað aftur. Segja má, að þar séu fórnardýr farin að taka völdin í eigin hendur. Alþjóðsamband flugþjónustufólks óttast, að senn hefjist slagsmál í flugvélum út af vaxandi notkun þessa hlutar, sem breytir valdahlutföllum meðal farþega.