Þjóð í kreppu?

Greinar

Bjartsýni og svartsýni vógu salt um helgina í ræðum manna á ráðstefnu Lífs og lands um “Þjóð í kreppu”. Einkum var þetta áberandi í misjöfnum viðhorfum til félagslegra og sálrænna vandamála nútímans á Íslandi.

Annars vegar var tíundað, hvernig einstaklingurinn væri að rofna úr tengslum við fortíð og framtíð, hvernig eining fjölskyldulífs og atvinnulífs hefði rofnað og ýmis hefðbundin hlutverk fjölskyldunnar færzt til annarra aðila.

Gegn þessu var minnt á, að kúgun hefði verið mikil í stórfjölskyldum og smáþorpum gamla tímans. Nútíma borgarlíf hefði drepið fólk úr dróma. Það lifði nú betra lífi en áður og væri hamingjusamara en í þá daga.

Sannleikurinn er sennilega sá, að vaxandi umsvif fræðinga félags og sálar eru ekki merki um kreppu eða hrun á þessum sviðum, heldur dæmi um, að vandamálum er meira sinnt en áður, þegar þau voru látin vera í friði.

Umfjöllun ráðstefnunnar um skóla og listir benti ekki til, að unnt væri að tala um kreppu á þeim sviðum. Þvert á móti var sagt, að menntun færi smám saman batnandi, þótt auðvitað væri hún ekki eins og bezt yrði á kosið.

Hin vaxandi umsvif í listum eru augljós. Hins vegar var einnig bent á, að þetta mikla magn væri svo til eingöngu handverk án snilligáfu. Því var jafnvel haldið fram, að snilldin kafnaði í magni handverks í listum.

Dregið var í efa, að sjálf kreppan, sem allir tala um, kreppan í efnahagsmálum, bæri nafn með rentu. Sagt var, að alveg eins og góðærið væri hún eðlilegur þáttur í framvindunni, tímabil gagnrýni og endurmats.

Bent var á, að Íslendingar gætu hert sultarólina margumtöluðu og væru að gera það. Við værum að draga úr sóun í ýmsan óþarfa, minnka fjárfestingu í skaðlegum gæluverkefnum – og án þess að atvinnuleysis hefði orðið vart.

Dregin var upp dökk mynd af andlegu hruni, sem fylgt hefur atvinnuleysi í nálægum löndum. Lögð var áherzla á, að slíkt mætti ekki koma fyrir hér. Í því felst, að varla er hægt að tala um efnahagskreppu hér enn sem komið er.

Samt má ekki gleyma, að peningaskortur er þegar farinn að valda mörgu fólki alvarlegum vanda. En á ráðstefnunni var líka sagt, að þessu fólki hafi tekizt tiltölulega vel að klóra í bakkann og mundi flestu takast það áfram.

Fullyrt var, að Íslendingar gætu, ef þeir beittu sér, náð tökum á svokallaðri vistkreppu, sem kemur fram í ofbeit á afréttum og ofveiði á miðum. Ennfremur væri ástæðulaust að óttast mengun af völdum iðnaðar eða stóriðju.

Guðfræðingarnir á ráðstefnunni voru einna óánægðastir með stöðuna. Nefnt var, að hin “mjúku” gildi ættu að leysa hin hörðu af hólmi. Og úr öðrum áttum var viðurkennt, að velmegunin hefði ekki skilað sér nægilega í aukinni lífshamingju.

Samkvæmt ráðstefnunni er kreppan ef til vill skæðust í vörnum séríslenzkrar menningar og séríslenzks þjóðernis. Erlendir straumar flæða yfir okkur og unga fólkið er upptekið af öllu útlendu, titrandi af eftirvæntingu.

Á ráðstefnunni fékkst auðvitað ekki neitt eitt svar við spurningunni um, hvort þjóðin væri í kreppu. Á mörgum sviðum eru blikur á lofti, en víða þar og annars staðar sjást teikn þess, að þjóðin geti kunnað fótum sínum forráð.

Jónas Kristjánsson.

DV