Þjóðaratkvæði

Greinar

Oddamenn stjórnarflokkanna hafa báðir sagt, að ekki verði reynt að hunza synjun forsetans á fjölmiðlafrumvarpinu. Því verður almenn þjóðaratkvæðagreiðsla um málið síðar í sumar eða í haust. Ef atkvæðagreiðslan dregst fram eftir hausti, væru stjórnaflokkarnir að brjóta ákvæði í stjórnarskránni.

Halldór Ásgrímsson var fljótur til að segja hug sinn í þessu efni. Það endurspeglar vafalaust þá staðreynd, að Framsókn, þar á meðal tveir þingmenn, voru tregir til stuðnings við hið umdeilda frumvarp. Davíð Oddsson þurfti sólarhring til umhugsunar áður en hann féllst á þjóðaratkvæðagreiðslu.

Lögspekingar höfðu þá allir, utan Þór Vilhjálmsson, tekið afstöðu með þjóðaratkvæðagreiðslu, talið hana sjálfsagða og eðlilega í þeirri stöðu, sem nú er uppi. Í Kastljósi sjónvarps ríkisstjórnarinnar neitaði forsætisráðherrann sér um haldreipi Þórs og féllst á sjónarmið utanríkisráðherrans.

Þjóðin hefur því tvö tækifæri til að taka afstöðu til synjunar forsetans, fyrst í sjálfum forsetakosningunum síðar í þessum mánuði. Mikið eða lítið fylgi Ólafs Ragnars Grímssonar forseta í þeim kosningum verður vafalaust túlkað á grundvelli ákvörðunar hans að synja fjölmiðlalögunum.

Ef kosningaþáttaka verður góð í samanburði við fyrri slíkar, þar sem forseti hefur leitað endurkjörs, og ef hann fær þar góða útkomu, má telja líklegt, að hann fái líka stuðning síðar í sumar eða í haust, þegar þjóðin greiðir atkvæði um synjun hans á fjölmiðlalögunum. Þetta er núna líklegast.

Það eina, sem getur kollvarpað þessu mati á framvindu málsins, er, að höfuðsmaður Baugsveldisins verði settur í gæzluvarðhald í millitíðinni á einhverjum þeim forsendum, sem þjóðin tekur þá gildar. Og þær mega þá vera fjandi góðar, annars teldu menn málið vera nýtt dæmi um bulluskap.

Gott er, að þjóðin fær tækifæri til að segja álit sitt á fjölmiðlafrumvarpinu. Enn betra væri, að stjórnmálamenn notuðu tækifærið til að setja á næsta þingi lög um þjóðaratkvæðagreiðslur í mikilvægum málum og að þau lög yrðu síðan notuð til að framkalla slíka málsmeðferð reglulega.

Í Sviss og í Kaliforníu er þjóðaratkvæðagreiðslum beitt sem föstum þætti lýðræðisins. Við hæfi væri, að mál á borð við Kárahnjúkastífluna, öryrkjalögin og aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu hefðu fengið slíka meðferð, jafnvel þótt niðurstaðan hefði í ljósi síðari reynslu talizt óhentug.

Þingræðið hefur hér verið að breytast í ráðherraræði og ráðherraræðið í samtal tveggja oddamanna í ríkisstjórn. Þjóðaratkvæðagreiðslur væru vörn gegn slíkum afvegum.

Jónas Kristjánsson

DV