Þjóðargjöf klúðrað

Greinar

Íslenzka ríkið og embættismenn þess munu halda áfram að tapa málum fyrir fjölþjóðlegum mannréttindadómstólum, ef illa unnið og afleitt afturhaldsfrumvarp formanna allra þingflokka um nýjan mannréttindakafla stjórnarskrárinnar verður samþykkt á Alþingi.

Einn höfunda frumvarpsins er hæstaréttardómari, sem var ráðgjafi íslenzka ríkisins, þegar það fór hrakförina fyrir mannréttindadómstóli Evrópu í máli, sem rithöfundurinn Þorgeir Þorgeirson sótti með góðum árangri. Ríkisvaldið virðist ekkert hafa lært af því.

Það er hart aðgöngu, að embættismenn ríkisins og forustumenn stjórnmálaflokkanna hyggjast gefa þjóðinni stjórnarskrárkafla, sem í ýmsum atriðum stendur að baki þeirri stjórnarskrá, sem danskur kóngur gaf Íslendingum að þeim forspurðum fyrir meira en heilli öld.

Ákvæði frumvarpsins um tjáningarfrelsi eru hlaðin undantekningum í anda íslenzkrar embættismannastéttar. Þau minna á hliðstæð undanbrögð í nokkrum frumvörpum um aðgang að opinberum upplýsingum. Þau frumvörp hafa sem betur fer ekki náð fram að ganga.

Aðferð frumvarpshöfundanna er svipuð og höfunda frumvarpanna um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Fyrst eru sett fram ákvæði í samræmi við alþjóðlegar hefðir. Í næstu grein eru þau dregin til baka með undantekningarákvæðum, sem yfirvöld geta túlkað sér í hag.

Amnesty International hefur sent stjórnarskrárnefnd Alþingis umsögn um frumvarpið að mannréttindakaflanum. Í umsögninni segir, að frumvarpið standist ekki alþjóðlegar kröfur í veigamiklum atriðum og sé ekki í samræmi við skyldur, sem Ísland hefur tekið á sig.

Virðing Íslands á alþjóðlegum vettvangi hefur beðið hnekki af smíði þessa frumvarps. Það er forkastanlegt, að alþjóðasamtök, sem hafa öðlast frægð af verndun lítilmagnans fyrir harðstjórum þriðja heimsins, skuli þurfa að taka íslenzka ríkið á hné sér til rassskellingar.

Athugasemdir Amnesty eru svo fjölþættar, að tæpast stendur steinn yfir steini í frumvarpinu. Þar vantar ákvæði um mannréttindi á tímum neyðarástands, um mannréttindi flóttamanna og ákvæði um bann við illri meðferð af hálfu lögreglu, sem dæmi hafa verið um.

Amnesty gagnrýnir líka ófullnægjandi ákvæði um tjáningarfrelsi. Sú gagnrýni fer saman við gagnrýni af hálfu nýstofnaðs Málfrelsissjóðs, sem rithöfundar og listamenn hafa stofnað til að berjast fyrir umbótum á lögum um málfrelsi, prentfrelsi og tjáningarfrelsi.

Verzlunarráð Íslands hefur lagzt á sveif með Amnesty og Málfrelsissjóði og raunar fleiri aðilum, svo sem Lögmannafélagi Íslands, til varnar tjáningarfrelsi. Bendir ráðið á, að ýmis takmarkandi atriði í frumvarpinu séu ekki í samræmi við Mannréttindasáttmála Evrópu.

Allt er, þegar þrennt er. Alþingi Íslendinga hefur í þrígang orðið sér til minnkunar með efnisrýrum montsamþykktum um þjóðargjöf. Eitt sinn gaf Alþingi fræ og áburð á hálendið, en kindur átu síðan gjöfina. Næst gaf Alþingi þjóðarbókhlöðu með langvinnum harmkvælum.

Í þetta skipti gleymdu ráðamenn Alþingis að undirbúa nógu vel hálfrar aldar afmæli lýðveldisins. Þeir ætluðu að bjarga Alþingi fyrir horn með sérstökum auka- og afmælisfundi á Þingvöllum, þar sem samþykkt var að láta smíða nýjan mannréttindakafla í stjórnarskrána.

Embættismönnum hefur fatazt smíðin hrapallega. Og formenn þingflokkanna sitja uppi sem hverjir aðrir aular með afturhaldsfrumvarp, sem bezt er, að fái hægt andlát.

Jónas Kristjánsson

DV