Þjóðarsátt náðist í morgun um vinnufrið í landinu í hálft annað ár. Aðilar að sáttinni eru að venju ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins. Sáttin byggist á yfirlýsingu, sem ríkisstjórnin bauð fyrir nokkru og nægði þá ekki til að ná mikilvægustu málsaðilunum um borð.
Dagsbrún og Verkamannasambandið eru komin inn í þjóðarsáttina og gera hana sterka. Fyrir utan standa Sjómannasambandið og samtök opinberra starfsmanna. Þau samtök skipta minna máli, af því að þau geta ekki truflað gangverkið í þjóðfélaginu að neinu ráði.
Ef veiðiflotinn stöðvast um tíma, má líta á það sem hagkvæmt innlegg í torsótta viðleitni til að hamla gegn ofveiði. Nokkurra mánaða stöðvun veiða væri raunar himnasending fyrir framtíð þjóðfélagsins. Þess vegna munu sjómenn ekki fá neitt út úr verkfallsaðgerðum.
Þjóðfélagið stendur hvorki né fellur með vinnuframlagi opinberra starfsmanna, þegar mikið er í húfi. Treyst er á verðmætasköpun atvinnulífsins, en ekki afkastagetu opinbera geirans. Þess vegna munu opinberir starfsmenn ekki fá neitt út úr hugsanlegum verkfallsaðgerðum.
Ríkisstjórnin lofar ekki að beita handafli gegn vöxtum, heldur að haga málum sínum á þann veg, að stuðlað geti að náttúrulegri lækkun vaxta vegna betra samræmis milli framboðs og eftirspurnar. Um leið lofar ríkisstjórnin að verja tveimur milljörðum í atvinnuaukningu.
Erfitt verður að samræma þetta tvennt. Tveggja milljarða innspýting kallar á fjármögnun ríkisvaldsins og annarra aðila, sem telja sig geta aukið umsvif sín af völdum atvinnuskapandi aðgerða og sérstakra verkefna á vegum stjórnvalda. Þetta þrýstir vöxtum upp, ekki niður.
Á einfaldri íslenzku þýðir þetta, að ríkisstjórnin mun annaðhvort ekki standa við tvo milljarðana eða ekki standa við aðgerðir til vaxtalækkunar. Hvorug leiðin kallar á uppsagnarákvæði þjóðarsáttarinnar, sem fjalla bara um gengi og þjóðartekjur, fiskverð og aflabrögð.
Hættulegasta atriði þjóðarsáttarinnar er, að samningsaðilar, þar á meðal fjármálaráðuneytið, skrifa undir, að aflakvótar á næsta fiskveiðiári, sem hefst í haust, verði ekki minni en á þessu fiskveiðiári. Þetta er í rauninni krafa um efnahagslegt sjálfsmorð þjóðarinnar.
Ríkisstjórnin skrifar undir þetta sem vinnuveitandi, en ekki sem stjórnvald. Hún getur því væntanlega vikið sér undan því að heimila sömu ofveiði á næsta ári og hún hefur leyft á þessu ári. Hún getur það, ef hún vill, með því að vísa til tillagna Hafrannsóknastofnunar.
Líta verður á málsgreinina um óbreytta aflakvóta eins og hvert annað rugl, sem þurfi að vera í þjóðarsáttum, af því að þjóðin sé svo veruleikafirrt, alveg eins og óskhyggja um vaxtalækkun þurfi að vera í þjóðarsáttum, af því að þjóðin vilji fá að lifa í sjálfsblekkingu.
Nytsemi þjóðarsátta af þessu tagi felst ekki í rökréttu innra samræmi þeirra, sem er ekki neitt. Gagnið felst í, að öflugustu stofnanir þjóðfélagsins koma sér saman um að halda friðinn í langan tíma, í þessu tilviki í hálft annað ár. Augljósar þverstæður blikna fyrir þeim ljóma.
Að baki þessarar sáttar eins og hinna fyrri er hin jákvæða staðreynd, að sterkustu öfl þjóðfélagsins hafa meiri áhuga á að vinna saman að uppbyggingu nýrra verðmæta heldur en að berjast til ólífis um skiptingu þeirra verðmæta, sem til ráðstöfunar eru hverju sinni.
Þjóð, sem byggir bjartsýni sína að nokkru leyti á sjálfsblekkingu, getur eigi að síður náð settu marki, ef hún er eins samhent og jákvæð og þjóðarsáttin sýnir.
Jónas Kristjánsson
DV