Þjóðarsátt er hættuleg

Greinar

Ráðgert er, að lækkun vaxta verði hornsteinn nýrrar þjóðarsáttar, sem Vinnuveitendasambandið er að kynna viðsemjendum sínum. Samkvæmt hugmyndafræði þjóðarsáttar á minni vaxtabyrði að gera atvinnulífinu kleift að greiða óbreytt laun, þrátt fyrir aflasamdrátt.

Þetta er eðlilegt framhald fyrri þjóðarsáttar, sem hafði minnkun verðbólgu að hornsteini. Hún náði að þessu leyti tilætluðum árangri, því að verðbólga komst niður fyrir 10% og er núna litlu hærri en í ýmsum nágrannalöndum, sem við miðum oft lífskjör okkar við.

Þjóðarsættum af þessu tagi fylgja vandamál, sem eru misþung á metunum eftir aðstæðum hverju sinni. Slík vandamál felast yfirleitt í einhverri frystingu ástands, sem þjóðarsættum fylgir ævinlega. Frysting ástands er handaflsaðgerð, sem getur hefnt sín, þótt síðar verði.

Dæmigert fyrir þetta er, að síðasta þjóðarsátt var gerð með vitund og vilja landbúnaðarins og fól í sér frystingu á þáverandi ríkisrekstri atvinnugreinarinnar. Þessi ríkisrekstur landbúnaðar mun kosta þjóðina 15-20 milljarða á þessu ári og meira á hinu næsta.

Blóðtaka af þessu tagi gerir þjóðfélaginu erfitt um vik að takast á við raunveruleg verkefni, sem horfa til framtíðar. Að þessu leyti stuðlaði síðasta þjóðarsátt að meiri sóun á verðmætum en hefði orðið með almennilegum ófriði og æskilegri röskun í þjóðfélaginu.

Síðasta þjóðarsátt naut þess, að verð útflutningsafurða hækkaði á tímabilinu. Það þýddi um leið, að gengi krónunnar skekktist ekki. Þess vegna varð þjóðarsáttin ekki til þess, að innflutningur og önnur gjaldeyrisnotkun ryki upp úr öllu valdi og eyðilegði þjóðarsáttina.

Nú eru hins vegar ekki horfur á eins miklum bata í viðskiptakjörum. Til viðbótar kemur svo vandi, sem felst í auknum samdrætti þorskveiða og fleiri greina sjávarútvegsins á næsta ári. Þessi rýrnun mun hafa geigvænleg áhrif á gjaldeyrisöflun og viðskiptajafnvægi.

Þegar hefur gengið skekkzt um 20%. Það er nokkurn veginn hlutfallið, sem skráð gengi yrði að falla um, ef Ísland gerðist aðili að evrópska myntbandalaginu. Það er einmitt vegna þessarar skekkju, að ráðamenn treysta sér ekki til að taka nú þegar þátt í bandalaginu.

Skakkt gengi hefur margvísleg vandræði í för með sér. Augljóst dæmi er, að utanlandsferðir verða ódýrari en þær mundu vera á jafnvægistíma og innfluttar vörur verða ódýrari fyrir kaupendur en þær eru í raun. Þetta stuðlar að því, að þjóðin lifi hraðar um efni fram.

Leiðrétting á gengi krónunnar hefur að sjálfsögðu tilhneigingu til að þrýsta innlendri verðbólgu upp á við og síðan vöxtunum í kjölfarið. Þess vegna er hætt við, að ný þjóðarsátt muni fela í sér frystingu á núverandi krónugengi, jafnvel þótt það sé hættulega skakkt.

Af þessu má ráða, að ný þjóðarsátt muni ekki bara staðfesta framhald á núverandi verðmætabrennslu í landbúnaði, heldur einnig staðfesta framhald á núverandi óhófi í gjaldeyrisnotkun. Að því leyti verða hliðarverkanir nýrrar þjóðarsáttar verri en hinnar fyrri.

Í rauninni felast þjóðarsættir í samkomulagi um lausn brýnna vandamála og frystingu, frestun eða afneitun langtímavandamála. Hlutföll skammtíma- og langtímavandamála eru óvenjulega óhagstæð um þessar mundir og það mun spilla gengi nýrrar þjóðarsáttar.

Eftir langvinna þjóðarsátt er orðið brýnt, að þjóðfélagið taki á vanda, sem hefur hlaðizt upp í rörunum og hafni nýrri útgáfu af hefðbundinni þjóðarsátt.

Jónas Kristjánsson

DV