Þjóðarsátt fasista

Greinar

Viðhorf Íslendinga til þjóðmála minna að ýmsu leyti á viðhorf fasistanna gömlu á Ítalíu. Hér er algengt, að menn líti á þjóðfélagið sem eina stóra fjölskyldu eða jafnvel einn líkama, sem þurfi að vinna saman, til dæmis í þjóðarsátt, en megi ekki eyða orku í slagsmál.

Stærsti stjórnmálaflokkur Íslands hefur oft sagzt vera “flokkur allra stétta” og hefur stundum beitt gömlu slagorði fasista um “stétt með stétt”. Svipaðar hugmyndir gegnsýra aðra stjórnmálaflokka okkar, til dæmis þá, sem mynda núverandi ríkisstjórn þjóðarsáttar.

Í hugmyndafræði íslenzka fasismans vinna gagnstæðir þrýstihópar saman undir forustu ríkisins og með stuðningi þess. Ríkisvaldið er aðili að kjarasamningum, sem gerðir eru milli heildarsamtaka á vinnumarkaðinum, og tekur á sig skuldbindingar í þágu þjóðarsáttar.

Launum fólks og verðbólgunni er núna haldið niðri með þjóðarsátt milli ríkisstjórnarinnar, Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Þetta er íslenzka stórfjölskyldan.

Landbúnaðurinn hefur löngum verið viðamesta dæmið um samtvinnun ríkisvalds og þrýstihópa. Þar hefur verið reynt að draga fulltrúa frá samtökum launafólks og neytenda inn í ákvarðanir um þróun verðlags og að fá landbúnaðinn í staðinn inn í þjóðarsátt.

Landbúnaðurinn er meira eða minna rekinn með hálfsjálfvirkum aðgerðum í sex manna nefndum og sjö manna nefndum og með aðild atvinnugreinarinnar að þjóðarsátt. Ákvarðanir í samráðshópum af ýmsu tagi, en ekki markaðslögmál, ráða afkomu landbúnaðar.

Á sama hátt er verið að slíta sjávarútveginn, einkum fiskiðnaðinn, úr samhengi við markaðinn og byggja upp samráðskerfi í stíl þjóðarsáttar. Eitt nýjasta dæmið um það er aflamiðlun, þar sem ríkið og þrýstihóparnir koma sér saman um, hve mikinn fisk megi flytja út ísaðan.

Í stórum dráttum stuðlar allur þessi fasismi, öll þessi þjóðarsátt að því að festa hlutina í fyrra jafnvægi. Úr þessu verður til velferðarkerfi atvinnulífsins, þar sem markaðslögmál eru meira eða minna aftengd. Menn ákveða í staðinn sameiginlega, hvað sé “sanngjarnt”.

Þróazt hefur ákveðin verkaskipting í oddamennsku í samstarfi stóra bróður og þrýstihópanna. Þjóðhagsstjóri juðar málum til og frá í nefndum og ráðum, sem varða sjávarútveg. Seðlabankastjóri fer í mál, sem varða alvörufyrirtæki á borð við orkuver og álver.

Stundum vill þjóðarfjölskylda þessi eða þjóðarlíkami brjótast út úr hefðum vanans. Þá eru teknar sameiginlegar ákvarðanir um að taka upp nýjar atvinnugreinar með fyrirgreiðslu stóra bróður. Þannig var farið á handahlaupum inn í fiskeldi og loðdýrarækt.

Hér morar allt í útflutningsráðum og þróunarráðum af ýmsu tagi, í líkingu við það, sem var í Bretlandi fyrir tíma Thatchers og hefði orðið þar aftur, ef Heseltine hefði tekið við. Í þessum ráðum sitja ríkisvald og þrýstihópar og reyna þróun og “átak” með handafli.

Þegar Austur-Evrópa hvarf frá þessum fasisma og ákvað að prófa markaðsbúskap, hélt Alþýðubandalagið, að það ætti líka að skipta um skoðun. Fljótlega mun það komast að raun um, að slíkt er ekki vænlegt til fylgis hér á landi. Þá mun það aftur falla í fjölskyldufaðminn.

Verðhækkanir á fiski í útlöndum hafa um langt skeið og munu enn um sinn gera Íslendingum kleift að sigla fasistasjó þjóðarsáttar um “velferð” atvinnulífsins.

Jónas Kristjánsson

DV