Þjóðarsátt hin mesta?

Greinar

Formenn stjórnarflokkanna, forsætisráðherra og utanríkisráðherra ríkisstjórnarinnar, hafa afhent frumkvæði efnahagsaðgerða í hendur sjávarútvegsráðherra. Þetta gerðu þeir með yfirlýsingum í fjölmiðlum um helgina. Forsætisráðherra gerði það með greinilegri fýlu.

Áhorfendur skildu þetta svo, að það væri mátulegt á ráðherra, sem ónáðaði samráðherra sína á þann hátt, að stofnun á hans vegum legði til minnkun á þorskafla niður í 150 þúsund tonn, þótt forsætisráðherra væri sjálfur búinn að segja, að þjóðin þyldi ekki niðurskurð.

Sjávarútvegsráðherra lét sér ekki bregða við þessar geðstirðu yfirlýsingar og kvaðst vera sammála: “Það er miklu hagkvæmara að hafa báða þætti málsins til meðferðar í sama ráðuneyti, bæði nýtingarstefnuna og það, sem lýtur að efnahagslega þættinum,” sagði hann.

Sjávarútvegsráðherra minnti á það í leiðinni, að samráðherrar hans hefðu nú loksins fallizt á ársgamlar tillögur hans um nýtingu aflaheimilda, þótt þeir hefðu neitað að gera það fyrir ári. Nú er þessi stefna sjávarútvegsráðherra múruð í bráðabirgðalögum, er sett voru fyrir helgi.

Óneitanlega er undarlegt að flytja frumkvæði í stjórn efnahagsmála á þennan hátt úr forsætisráðuneytinu yfir í sjávarútvegsráðuneytið. Það setur forsætisráðherra og utanríkisráðherra í erfiða stöðu, þegar þeir þurfa að fjalla um efnahagstillögur sjávarútvegsráðherra.

Ef þeir taka tillögunum dræmt eða illa, verður sagt, að þeir séu enn í fýlu. Ef þeir taka þeim vel, verður sagt, að sjávarútvegsráðherra sé klettur ríkisstjórnarinnar. Erfitt er að spá um, hvort verði þeim sárara, því að hrifning þeirra á sjávarútvegsráðherra er takmörkunum háð.

Þetta hefur forsætisráðherra verið sagt. Hann lagði því til í ríkisstjórninni eftir yfirlýsingahelgina, að efnt yrði til starfshóps ríkisstjórnar, stjórnarandstöðu og aðila vinnumarkaðarins til að leita leiða til að laga stöðu sjávarútvegsins í kjölfar samdráttar í þorskveiðikvóta.

Þetta er góð hugmynd, þótt hún sé þeim annmörkum háð, að forsætisráðherra hefur sjálfur hafnað óskum stjórnarandstöðunnar um, að Alþingi verði kvatt saman til að ræða hina nýju stöðu. Það er því eins líklegt, að stjórnarandstaðan telji sig áður hafa verið afskrifaða.

Auðvitað væri þægilegt fyrir ríkisstjórnina, ef hún fengi stjórnarandstöðuna og samtök vinnumarkaðarins til að fara yfir efnahagstillögur sjávarútvegsráðherra og slípa þær, áður en forsætisráðherra og utanríkisráðherra gera þær að sínum. Og það gæti verið gott fyrir þjóðina.

Með tillögunni um afskipti stjórnarandstöðu og vinnumarkaðar af yfirstjórn efnahagsmála hefur forsætisráðherra stigið hálft skref í átt til þjóðstjórnar. Spurningin er þá, hvort ekki beri að taka þessa aðila inn í ríkisstjórn, svo að úr verði söguleg þjóðarsátt hin mesta.

Þótt sjávarútvegsráðherra sé með félagsmálaráðherra annar af tveimur ráðherrum ríkisstjórnarinnar, sem vinna mál sín af kostgæfni, er hætt við, að tillögur hans um lausn efnahagsmála mótist of mikið af hagsmunum sjávarútvegs og dreifbýlisdeildar Sjálfstæðisflokksins.

Því er ágætt, að unnt sé að tempra frumkvæðið, sem sjávarútvegsráðherra hefur verið falið í efnahagsmálum. Ef hægt er að fá stjórnarandstöðu og vinnumarkað til að manna starfshóp til að fara yfir tillögur hans, eru nokkrar líkur á, að þjóðin geti snúið bökum saman.

Þetta mikla efnahagsáfall kallar á mikla þjóðarsamstöðu um að taka allan skellinn niður í 150 þúsund tonn og finna efnahagsleiðir til að þreyja nokkur mögur ár.

Jónas Kristjánsson

DV