Þjóðarsátt og -illindi

Greinar

Álit Auðlindanefndar var langrar biðar virði, óvenjulega ítarlegt og yfirgripsmikið, vel rökstutt og skýrt fram sett. Enn merkilegri er sáttin, sem náðist um niðurstöðuna meðal nefndarmanna, sem valdir höfðu verið með hliðsjón af fjölbreytilegum sjónarhólum þeirra.

Nefndarsáttin og textastíllinn er glæsilegur endir á efnahagspólitískum ferli Jóhannesar Nordal. Sem formaður nefndarinnar vann hann það afrek að stilla saman strengi allra níu nefndarmanna í eina hljómkviðu, sem á að vera öllum áhugamönnum skýr og skiljanleg.

Niðurstöðurnar ná að vísu hvergi nærri eins langt og ákjósanlegt hefði verið. Uppboðsleiðin, sem kölluð er fyrningarleið í plagginu, er ekki nógu þungt á metunum. Of langt er gengið til móts við sérhagsmuni kvótaeigenda í því skyni að slá vopnin úr hendi þeirra.

Á hinn veginn fellur niðurstaðan ekki heldur að óskum hagsmuna-gæzlumanna í pólitíkinni. Forsætisráðherra segist sjálfur hefði kosið aðra útkomu, en segist um leið kunna að meta þessa tilraun til að ná sáttum í þjóðfélaginu. Tilraunin sé stóratburður í samtímasögunni.

Aðrir hagsmuna-gæzlumenn í pólitíkinni hafa síður kunnað að hemja gremju sína. Sjávarútvegsráðherra og formaður vinstri grænna hafa hvor um sig talað um niðurstöðuna sem ágætt plagg inn í væntanlega umræðu um enn frekari sátt í þjóðfélaginu um þetta mál.

Spyrja má þessa hagsmuna-gæzlumenn, hvaða sátt í þjóðfélaginu geti verið meiri sátt en kraftaverkið í auðlindanefndinni. Hvaða aðrar niðurstöður finnast, sem eru nær meðaltals-sjónarmiðum en þessar? Í þjóðfélagi, sem leikur á reiðiskjálfi, hvenær sem minnst er á kvóta?

Hagsmuna-gæzlumennirnir eiga raunar við sátt milli þjóðarsáttar annars vegar og hagsmuna umbjóðenda þeirra hins vegar. Þannig verði til dæmis ekki valin fyrningarleið í aflakvótanum og þannig verði aukið hlutfall veiðigjaldsins látið renna til byggðamála.

Sú verður einmitt framvinda málsins, að hagsmunaaðilar munu beita umboðsmönnum sínum til að krukka í niðurstöðurnar og fá nýja útkomu, sem er fjær raunverulegri þjóðarsátt, en nær hagsmunum umbjóðendanna. Um slíka útkomu verður samt engin þjóðarsátt.

Sjávarútvegsráðherra, formaður vinstri grænna og aðrir slíkir hafa sjálfsagt afl til að skekkja útkomuna. Niðurstaðan verður þá engin þjóðarsátt til langs tíma, heldur enn eitt ofbeldið, sem leiðir til hatrammrar umræðu og klofnings í þjóðfélaginu, svo sem verið hefur.

Þótt nefndarmenn auðlindanefndar hafi næga víðsýni til að standa að niðurstöðu, sem í einhverjum atriðum er hverjum einasta nefndarmanni ekki að skapi, verður ekki hið sama sagt um íslenzka pólitíkusa. Þeir munu breyta þjóðarsátt nefndarinnar í ný þjóðarillindi.

Í þjóðarsátt nefndarinnar er þegar búið að gera ráð fyrir, að helmingur auðlindagjaldsins í sjávarútvegi renni til sjávarplássa. Þar er þegar búið að gera ráð fyrir, að fyrning kvóta gerist á löngum tíma, svo að kvótaeigendur geti lagað rekstur sinn að skilyrðum hvers tíma.

Í þjóðarsátt nefndarinnar er þegar búið að reikna afkomu fiskveiðanna og spá í burði þeirra til að standa undir auðlindagjaldi, hvort sem það er í formi fyrningar eða veiðigjalds. Þannig er þegar búið að taka tillit til sérhagsmuna í varfærinni niðurstöðu nefndarinnar.

Forsætisráðherra hefur raunar minnt gæzlumenn sérhagsmuna á, að til lítils sé að setja svona vinnu af stað, ef menn ætli ekki að taka mark á henni.

Jónas Kristjánsson

DV