Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz segjast vera að bralla þjóðarsátt um nýtingu á auðlindum. Eftir lýsingum þeirra er ekki um þjóðarsátt að ræða, heldur sátt milli stjórnarflokkanna og Samfylkingarinnar um undanbrögð og athuganir fram yfir kosningar, svo að hægt sé að setja aukinn kraft í stórvirkjanir eftir kosningar. Ég veit ekki, hverjir eiga að trúa spunanum um þjóðarsátt, en hræddur er ég um, að kaupendur verði fáir, nema nokkrir bæjarstjórar og bæjarfrömuðir Samfylkingarinnar, sem sakaðir hafa verið um að reyta fylgið af henni til að koma álveri í Hafnarfjörð og Húsavík.