Þjóðarsátt um kreppu

Greinar

Launafólk vill ekki stofna til átaka til að hamla gegn mikilli og sífelldri kjaraskerðingu. Forustufólk Alþýðusambandsins hefur metið stöðuna í kreppunni og telur heppilegast að fresta samningum til hausts, af því að samningsaðstaðan sé alls engin um þessar mundir.

Atkvæðagreiðsla kennara og annarra opinberra starfsmanna sýndi, að jafnvel þeir, sem við mest atvinnuöryggi búa, eru ekki tilbúnir til átaka, þrátt fyrir eindregna hvatningu forustuliðsins. Ráðin voru tekin af þessum launþegarekendum, sem áttuðu sig ekki á veruleikanum.

Ekki er nóg með, að launafólk skilji, að minna er til skiptanna í þjóðarbúinu við núverandi ástæður, heldur er það um leið ekki fáanlegt til að draga pólitískar ályktanir af slæmri útreið sinni í heimatilbúinni kreppu, sem stjórnmálamenn og sérfræðingar hafa fært þjóðinni.

Kvartmilljón manna þjóð hefur ekki ráð á að borga rúmlega tuttugu milljarða á ári til að halda uppi kúm og kindum, tíu milljarða á ári til að varðveita útveggjasteypu og fimm milljarða á ári til að greiða tjónið af fyrirgreiðslurugli ráðamanna í pólitík og lánastofnunum.

Allar þessar tölur liggja á borðinu. Kýr og kindur kosta níu milljarða á fjárlögum og tólf að auki í innflutningsbanni. Árlegur herkostnaður við steypu hefur rækilega verið skjalfestur. Tjónið í lánastofnunum kemur skýrt fram í afskriftum og nú síðast í Landsbankafári.

Almenningur er svo sem ekki ánægður með þessa meðferð fjármuna, en sættir sig við hana. Að minnsta kosti heldur fólk áfram að hafa lítil afskipti af stjórnmálum önnur en að kjósa stjórnmálaflokka og -foringja, sem í flestum peningalegum atriðum eru hver öðrum líkir.

Ekki má heldur gleyma, að margir þeirra, sem hafa greind og þekkingu til að átta sig á ruglinu, hafa komið sér sæmilega fyrir í lífinu. Þeir skipa yfirstétt og vel stæða millistétt, sem geta varið kjör sín, þótt almenningur verði fyrir búsifjum af völdum verðmætabrennslunnar.

Klofningur þjóðfélagsins lýsir sér vel í, að meðaldýrir bílar seljast illa, ódýrir bílar betur og dýrir bílar allra bezt. Óhóf og munaður blómstra sem aldrei fyrr við hliðina á vaxandi örbirgð hinna, sem hafa beðið eða eru að bíða lægri hlut í samdrætti og harðnandi lífsbaráttu.

Yfirstéttin hefur brugðizt þjóðinni. Stjórnmálamenn standa fyrir gálausri meðferð fjármuna, studdir ráðamönnum lánastofnana. Sérfræðingagengið í kringum ráðherrana lætur verðmætabrennsluna í friði. Sérfræðingar byggingaiðnaðarins halda áfram að nota steypu.

Yfirstéttin í samtökum launafólks hefur líka brugðizt. Hún hefur gefist upp gagnvart heimasmíðaðri kreppu í stað þess að krefjast þess, að tækifærið verði notað til að stöðva verðmætabrennslu í landbúnaði og í lánveitingum til gæluverkefna og gæludýra atvinnulífsins.

Ef fólk tæki af festu á málum af þessu tagi, kastaði út andvana forustuliði sínu í stéttarfélögum og stjórnmálum og veldi sér nýja forustu, væri hægt að skera niður ruglið og láta alla njóta miklu betri lífskjara. En því miður sér almenningur ekki samhengið í erfiðleikunum.

Þess í stað heldur íslenzk undirstétt áfram að líta upp til yfirstéttarinnar, alveg eins og forfeður hennar litu áður upp til kóngsins og hirðarinnar. Undirstéttin setur ekki skilyrði fyrir undirgefni sinni og gerir alls engar sjáanlegar kröfur til árangurs í starfi yfirstéttarinnar.

Þannig hefur verið og verður áfram þjóðarsátt um að halda friðinn og trufla ekki það ferli, sem hefur leitt þjóðina út í kreppu og á eftir að magna kreppuna enn frekar.

Jónas Kristjánsson

DV