Þjóðarsátt um sultarlaun

Greinar

Ríkissjóður á ekki fyrir hærri launum kennara eða annarra starfsmanna sinna. Ríkissjóður á hvorki hálfan milljarð til viðbótar við þá sjö milljarða, sem hann borgar kennurum árlega, né neina aðra upphæð. Ríkissjóður á satt að segja ekki bót fyrir rassinn á sér.

Þetta stafar af þjóðarsátt um velferðarkerfi gæludýranna. Þar ber hæst hinn hefðbundna landbúnað, sem kostar ríkissjóð svipað á fjárlögum og nemur öllum launum kennara í landinu samanlögðum. Eins og aðrir landsmenn eru kennarar óbeinir aðilar að þjóðarsáttinni.

Skoðanakannanir sýna, að meirihluti þjóðarinnar stendur að þjóðarsátt, sem felur í sér þennan milljarðakostnað ríkissjóðs og þar á ofan enn hærri upphæðir, sem neytendur borga árlega í of dýrar matvörur vegna innflutningshafta á samkeppnisvörum landbúnaðarins.

Auðvitað er skömm að launum kennara eins og raunar margra annarra hópa í landinu. En þessi lágu laun eru sjálfskaparvíti þjóðar, sem telur sig hafa ráð á skipulagðri verðmætabrennslu, sem nemur nálægt tuttugu milljörðum í hefðbundnum landbúnaði einum saman.

Kennarar og samtök þeirra hafa ekki frekar en aðrir aðilar bent á, að skerða megi velferðarkerfi gæludýranna til að efla velferð kennara. Raunar hafa engar tillögur komið úr þeirri átt um, hvernig ríkið eigi að fjármagna kröfur kennara í viðræðunum um nýja kjarasamninga.

Eðlilegt er að krefjast tillagna um þetta. Ef samtök kennara sjá enga matarholu í velferðarkerfi gæludýranna, geta þau sett fram vinsælar tillögur, til dæmis um, að skattar verði hækkaðir á þeim hluta hálaunafólks, sem ekki hefur aðstöðu til að snyrta skattskýrslur sínar.

Þá gætum við séð skemmtilegar samanburðartölur á borð við þær, að hækka þurfi skattahlutfall svonefnds hátekjufólks í rúmlega 100% til að standa undir kröfum kennara. Ef alls engar tillögur eru fáanlegar, verður að telja, að kjarakröfurnar séu alls ekki málefnalegar.

Eigi að síður enda kjarasamningarnir með, að kennarar fá eitthvað fyrir sinn snúð. Það stafar af, að alþingiskosningar eru á næsta leiti. Við slíkar aðstæður er hefðbundið, að ráðamenn samþykkja ýmsa óráðsíu, taka peninga að láni og senda reikninginn til afkomenda okkar.

Allir ráðamenn þjóðarinnar á undanförnum áratugum hafa verið vissir um, að lappa megi upp á velferð þjóðarinnar með því að féfletta börnin okkar. Nú verður það enn einu sinni gert og að þessu sinni í þágu kennara, sem líklega telja þann anga málsins vera sér óviðkomandi.

Athyglisverður hliðarbrandari í máli þessu er, að ríkisvaldið vill ekkert hafa með kennara að gera og er í önnum að losna við þá sem bráðast í hendur sveitarfélaganna, sem heldur ekki vilja hafa neitt með þá að gera og mótmæla hástöfum of miklum hraða við yfirfærsluna.

Allir þrýstihópar vilja fá það, sem þeir telja vera sinn hlut, og engar refjar. Enginn þrýstihópur telur sig þurfa að útskýra, hvernig eigi að fjármagna fyrirgreiðslur, sem þeir heimta. Þjóðmálin eru meira eða minna farin að snúast um útgjöld án innistæðna, hraðprentun seðla.

Meðal starfsmanna ríkisins er minni skilningur en annars staðar á samhengi verðmætasköpunar og verðmætanotkunar. Vegna þjóðarsáttarinnar um velferð gæludýra er ekki hægt að segja, að slíkur skilningur sé í verkahring annarra og komi kennurum ekki við.

Kennarar eru hluti þjóðar, sem getur ekki veitt sér mannsæmandi laun af því að hún hefur ákveðið að verðmætabrennsla í þágu gæludýra sé algert forgangsmál.

Jónas Kristjánsson

DV