Þjóðbrautin rofnar.

Greinar

Þáttaka Íslands í fluginu yfir Atlantshafið var ánægjulegur kafli í lífi þjóðarinnar. Halastjarna Loftleiða færði Íslendinga nær umheiminum. Hún svipti okkur raunar í þjóðbraut velmegunarlanda heims.

Nú er kafla þessum senn lokið. Ferðirnar vestur um haf eiga nú senn að verða þrjár í viku í stað rúmlega tuttugu á velgengnisárunum. Kaupmannahöfn er aftur að verða gluggi okkar að umheiminum.

Verðstríðið á flugleiðum Atlantshafsins hefur bakað Flugleiðum meira tjón en menn gera sér grein fyrir. Það er svo mikið, að endar næðust ekki saman, þótt sagt yrði upp öllu starfsliði þess þáttar, öðrum en flugliðum um borð.

Þegar hefur verið sagt upp fimmta hverjum starfmanni Flugleiða á Íslandi. Það gerðist í tveimur megináföngum, á miðju síðasta ári og í lok þessa. Ekkert bendir samt til þess, að samdrátturinn sé á leiðarenda.

Við hljótum að fagna því, að stjórnendur Flugleiða segjast ekki vilja láta fyrirtækið leggjast upp á ríkið og að þeir ganga hart fram í að reyna að draga saman útgjöld til samræmis við tekjur.

Í atvinnulífi Íslendinga híma ýmsar freistingar landbúnaðarkerfis. Ríkissjóður er nú þegar að sligast undir landbúnaðinum einum, þótt flugið og aðrar atvinnugreinar bætist ekki ofan á þá atvinnubótavinnu, sem fyrir er.

Það er betra að höggva frá sjúka þætti fyrirtækisins en leyfa þeim að eitra reksturinn í heild. Há fargjöld í innanlandsflugi og Evrópuflugi mega ekki til lengdar halda uppi vonlitlu Atlantshafsflugi.

Þann fyrirvara verður þó að hafa, að við getum ekki treyst rekstrarupplýsingum stjórnenda Flugleiða frekar en fyrri daginn. Fjölþjóðafyrirtæki getur hagað viðskiptum systur- og dótturfélaga eflir hentugleikum.

Hugsanlegt er, að Flugleiðir hafi með slíkum hætti farið halloka í viðskiptum sínum við Cargolux, Air Bahama, Hekla Holdings og ýmis önnur fyrirtæki, sem Flugleiðir hafa staðið að í ýmsum heimsálfum.

Þegar Flugleiðum gengur illa á sama tíma og ýmsum systur- og dótturfyrirtækjum í útlöndum gengur vel eða sæmilega, er mjög erfitt að átta sig á, að hve miklu leyti tapið felst í bókhaldsþáttum innri viðskipta samsteypunnar.

Ekki verður heldur hjá því komizt að gagnrýna ýmis ytri viðskipti stjórnenda Flugleiða. Þeir ollu félaginu miklu tjóni með því að beina eldsneytiskaupum til vafasams ævintýrafyrirtækis á Bahamaeyjum.

Verstu mistökin virðast felast í kaupunum á breiðþotu. Þar hlýtur að hafa misreiknazt kostnaður á hvern farþega, samfara ótrúlegu vanmati á varanleika verðstríðsins á flugleiðum Atlantshafsins.

Sömuleiðis verða stjórnendur Flugleiða gagnrýndir fyrir að eyða stundum meiri tíma í innri valdabaráttu og tafl um stuðningsmenn í áhrifastöður innan fyrirtækisins. Þetta hefur lamað vinnugleði starfsmanna.

Ekki má heldur gleyma hneykslanlegum þætti flugmanna. Í fyrra bökuðu þeir félaginu hundraða milljóna króna tjón með ýmsum fjárhagslegum hryðjuverkum og vissu þó vel um vandamálin.

Á sakamannabekknum sitja einnig stjórnvöld landsins, sem á sínum tíma neyddu flugfélögin til sameiningar. Það voru stærstu mistökin.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið