Þjóðin hefur ákveðið sig

Greinar

Þjóðin hefur tekið skýra afstöðu í tveimur deilumálum líðandi stundar. Þrír fjórðu hlutar hennar eru andvígir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við kvótadómi Hæstaréttar. Tveir þriðju hlutar hennar eru andvígir uppistöðulóni í Eyjabökkum vegna orkuöflunar fyrir stóriðju.

Ríkisstjórnin hefur ekki einu sinni getað sannfært stuðningsmenn sína í þessum tveimur málum. Meirihluti stuðningsmanna beggja flokka er andvígur flokksforustunni í kvótamálinu og meirihluti Sjálfstæðisflokksins er einnig andvígur uppistöðulóni í Eyjabökkum.

Ríkisstjórnin kemst hins vegar upp með að ganga gegn vilja þjóðarinnar og stuðningsmanna sinna, af því að kjósendur setja ekkert samasemmerki milli skoðana sinna á ýmsum málum og afstöðu sinnar í kjörklefanum. Ríkisstjórnin nýtur áfram yfirburðafylgis kjósenda.

Þetta þýðir, að ríkisstjórnin fær traustan meirihluta í kosningunum í vor til þess að framkvæma kvótastefnu og virkjanastefnu sína. Kjósendur munu ekki taka sjálfir neina pólitíska ábyrgð á þessum tveimur ágreiningsmálum, þótt þeir hafi á þeim eindregna skoðun.

Þótt afnumin verði þjóðareign á fiskistofnun og sérstæðum náttúruvinjum drekkt í uppistöðulónum, er nokkur sárabót að vitneskjunni um, að þjóðin lætur þetta ekki alveg meðvitundarlaust yfir sig ganga. Hún lýsir andstöðu sinni, þegar hún er beinlínis spurð.

Gæzlumenn sérhagsmuna skáka stundum í því skjóli, að þeir séu óbeint hagkvæmir fyrir þjóðfélagið og þjóni þannig almannahagsmunum um leið. Í Bandaríkjunum var í gamla daga sagt, að það, sem væri gott fyrir General Motors, væri gott fyrir Bandaríkin í heild.

Þetta á engan veginn við í málunum tveim, sem hér eru til umræðu. Hægt er að halda uppi verðgildi fiskistofnanna með því að takmarka aðgang að þeim, þótt eigendur fiskiskipa einoki ekki aðganginn. Hagkvæmnin næst með því að setja kvótana á opið uppboð.

Orkuver í þágu stóriðju bera lítinn arð um allan heim og einnig hér á landi, enda er orkuverðið svo lágt, að það er feimnismál. Rekstur orkuveranna og stóriðjunnar sker sig úr öðrum atvinnugreinum í lítilli mannaflaþörf í samanburði við þær greinar, sem rutt er til hliðar.

Þannig munu Austfirðingar geta haft margfalt meiri og traustari tekjur af þróun ferðaþjónustu í fjórðungnum en af orkuverum og stóriðju. Margfalt fleiri geta haft lifibrauð sitt af ferðaþjónustu, sem fær að þroskast á eðlilegan hátt, en kemur ekki og fer í einum rykk.

Framkvæmdir við orkuver og stóriðju valda mikilli sveiflu, þar sem mikinn mannskap þarf á skömmum tíma. Atvinnuauðn blasir síðan við, þegar framkvæmdum linnir og menn hafa vanrækt að byggja í fjórðungnum upp heilbrigða atvinnuvegi í sátt við landið.

Því fer fjarri, að andstaða við núverandi kvótakerfi og fyrirhugað uppistöðulón í Eyjabökkum sé eingöngu tómstundahugsjón vel stæðra þéttbýlisbúa. Þessi andstaða við framgang sérhagsmuna á sér einnig hagkvæmnisforsendur. Hún er beinlínis í þágu almannahagsmuna.

Langvinnar deilur hafa staðið um kvótann og uppistöðulónin. Málflutningi er meira eða minna lokið, þjóðin hefur tekið afstöðu og er andvíg hvoru tveggja. Það skortir aðeins, að þjóðin taki afleiðingum skoðana sinna með því að kúga stjórnarflokkana til hlýðni.

Þegar meirihlutinn hefur sagt álit sitt á ótvíræðan hátt hlýtur að vera hægt að víkja til hliðar gæzlumönnum sérhagsmuna í stærstu stjórnmálaflokkunum.

Jónas Kristjánsson

DV