Þjóðin ræður í raun

Greinar

Þjóðin hafnar ekki bara hugmynd menntaráðherra um íslenzkt þjóðvarðlið, heldur einnig því, að hún sé yfirleitt til umræðu. Níu af hverjum tíu eru andvígir og aðeins einn fylgjandi, samkvæmt skoðanakönnun DV í gær. Svo eindreginn munur er nánast einsdæmi.

Þetta er að vísu miður, því að margt er gott um þessa hugmynd. Það hefur verið rökstutt áður í þessum dálkum og verður ekki endurtekið. Það þýðir ekki að deila við dómarann, ef það er þjóðin, sem er í sæti hans. Umræða um þjóðvarðlið fellur því niður. Málið er afgreitt.

Skoðun þarf fylgi öflugs minnihluta til að hún sé í alvöru til umræðu og til greina komi að vinna að auknu fylgi hennar. Fimmtungs eða fjórðungs fylgi er alls ekki slæmur grunnur til að byggja á í upphafi fremur lítt kunns máls, en tíundi hluti er of lítill grunnur.

Annað mál er hins vegar örugglega til umræðu, því að meira en þriðjungur þjóðarinnar styður það, viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er minnihlutaskoðun, en öflug minnihlutaskoðun samt; skoðun, sem hægt er afla meirihlutafylgis með tímanum.

Forsætisráðherra hefur nokkrum sinnum sagt á undanförnum misserum, að viðræður um þessa aðild séu ekki til umræðu. Það er rangt, því að það er þjóðin, sem ákveður, hvað sé til umræðu og hvað sé ekki til umræðu. Í lýðræðisríki getur landsstjórnin ekki ráðið slíku.

Því hefur málið haldið áfram að vera til umræðu. Það verður til umræðu á minnihlutastigi, þangað til hin pólitíska stífla brestur vegna þróunar efnahagsmála í Evrópu og á Íslandi. Sú breyting, hæg eða hröð eftir atvikum, verður málflutningi stuðningsmanna aðildar í vil.

Oft kemur í ljós, að munur er á sjónarmiðum þjóðar og yfirstéttar stjórnmálanna. Það kom vel í ljós í skattsvikamáli Alþingis, sem varð því til mikillar vansæmdar. Umræðan um það leiddi í ljós, að yfirstéttin gerði sér ekki einu sinni grein fyrir, um hvað umræðan var.

Umræðan var um skattsvikaákvæði fyrir yfirstéttina, sem hún setti sér sjálf. Umræðan var ekki um niðurstöðu Kjaradóms, eins og forsætisráðherra vill halda. Og hún var ekki um mismun á kjörum Íslendinga og nágrannaþjóða, eins og yfirmenn Alþingis vilja halda.

Raunar telur forseti Alþingis og tekur sérstaklega fram, að stjórnendur þess hafi ekki gert nein mistök í málinu. Þeir séu bara að taka tillit til múgsefjunar til að róa landslýðinn, rétt eins og menn róa stundum börnin sín, þótt þau eigi það ekki málefnalega skilið.

Annað mál er til umræðu í þjóðfélaginu og verður það áfram með vaxandi þunga, þótt atferli landsstjórnarmanna í ýmsum búvöruhöftum bendi ekki til þess, að þeir telji svo vera. Það er eindregin andstaða stjórnvalda við hagsmuni neytenda, skattgreiðenda og launafólks.

Einhvern tíma segir þjóðin, að nú sé komið nóg. Ekki verði lengur þolað, að ráðamenn landsins gæli svo grimmt við hagsmuni fámennrar stéttar í bændahöllum Reykjavíkur, að þeir fórni möguleikum þjóðarinnar til að fylgja nágrönnum sínum eftir í lífskjörum.

Vaxandi munur á lífskjörum og lífsgæðum Íslendinga og nágranna okkar í austri og vestri mun fyrr en síðar gera öflugar minnihlutaskoðanir í málefnum Evrópu, viðskiptafrelsis og landbúnaðar að öflugum meirihlutaskoðunum. Á meðan verða þau mál áfram til umræðu.

Þjóðin getur haft rangt fyrir sér og jafnvel slátrað góðum framfaramálum. Eigi að síður á hún sjálf að ráða umræðunni og síðan niðurstöðunni. Og hún gerir það.

Jónas Kristjánsson

DV