Þrjú atriði vega einna þyngst í áhyggjum manna af gengi Íslands í evrópsku efnahagssvæði. Öll varða þau fullveldi þjóðarinnar og stöðu Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar. Þessi þrjú atriði eru landakaup útlendinga, aðflutningur vinnuafls og útlend lögsaga dómstóla.
Íslenzk stjórnvöld geta, ef þau vilja, hagað málum á þann veg, að tvö fyrri atriðin verði okkur ekki hættuleg. Síðasta atriðið er ekki eins áþreifanlegt, en ekki síður brýnt skoðunarefni fjölmiðlaumræðunnar og þeirra, sem falið er að annast málin af Íslands hálfu.
Íslenzka ríkið ver milljörðum á hverju ári til stuðnings hefðbundnum landbúnaði. Ef stuðningnum eða hluta hans væri breytt í landakaup, t.d. á þann hátt, að ríkið tæki hlutabréf í jörðum fyrir framlagða peninga, gæti það smám saman hindrað sölu þeirra til útlendinga.
Þar að auki gæti ríkið notað hluta af árlegum stuðningi sínum til að kaupa afréttarlönd, sem það á ekki nú þegar, og jarðir á þeim stöðum, sem skipta mestu máli fyrir ferðaþjónustu. Hætt er við, að fáir útlendingar treysti sér til að keppa við ríkið á þessu sviði.
Á síðustu árum er ríkið farið að kaupa af bændum rétt þeirra til að framleiða hefðbundna búvöru. Ekki er nema stutt skref frá slíkum réttindakaupum yfir í kaup á landi til sameiginlegra afnota fyrir landsmenn eða til framleigu með kvöðum af hálfu landeiganda.
Sem hver annar landeigandi gæti ríkið sett kvaðir, sem eru strangari en þær, sem ríkið getur sett sem yfirvald í landinu. Sem landeigandi getur ríkið séð um, að viðkomandi land renni ekki í leigu til annarra en þeirra, sem eru og hafa lengi verið búsettir í landinu.
Íslenzka ríkið hefur einnig leiðir til að hindra óhæfilega mikinn straum erlends verkafólks til landsins. Ríkið getur beitt áhrifum sínum til þess, að settar verði reglur um, að innlent og erlent starfsfólk þurfi að hafa náð prófi í íslenzku hjá viðurkenndri skólastofnun.
Allir Íslendingar hafa slíkt próf frá skólakerfinu. Útlendingar yrðu að taka ákvörðun um að hafa fyrir því að taka slík próf, nema þeir fengju undanþágu í svipuðu skyni og atvinnuleyfi hafa hingað til verið veitt útlendingum til að leysa tímabundinn skort á vinnuafli.
Formlega séð væru allir jafnir fyrir slíkum lögum um íslenzkukunnáttu, sem sett væru til að koma í veg fyrir sambandserfiðleika milli fólks á vinnustöðum. Og útlendingar, sem nenntu að komast yfir múrinn, væru þrjózkunnar vegna vel tækir í samfélag Íslendinga.
Reglunum verða að fylgja víðtækar undanþágur, svo að erlent fólk geti unnið hér að sérstökum verkefnum í atvinnulífinu, svo sem tímabundnum eða sérhæfðum. Sennilega yrði nauðsynlegt að undanskilja starfsfólk erlendra verktaka, sem taka að sér tímabundin verk.
Erlendir verktakar eru okkur nauðsynlegir til að ná niður verðlagi, alveg eins og erlend flugfélög og tryggingafélög. Þeir hafa líka þann kost, að verk þeirra eru tímabundin, svo að starfsfólk þeirra kemur og fer, að svo miklu leyti sem það er ekki hreinlega innlent.
Sennilega koma fleiri leiðir en þessar til greina, ef þjóð og stjórnvöld telja nauðsynlegt að efla þröskulda gegn þeim erlendum áhrifum, sem væru til þess fallin að breyta þeim grundvallarforsendum þjóðfélagsins, að Ísland eigi að vera fyrir íslenzkumælandi Íslendinga.
Ekki er víst, að slíkir þröskuldar séu heppilegir. En velji þjóðin þröskulda, getur samningurinn um evrópskt efnahagssvæði ekki hindrað hana í að smíða þá.
Jónas Kristjánsson
DV