Þjóðin þarf frið

Greinar

Færzt hefur í vöxt að undanförnu, að ríkisstjórnir hafi skaðleg áhrif með viðhorfum sínum og vinnubrögðum. Mjög bar á þessu í tíð ríkisstjórnarinnar, sem sagði af sér í beinni útsendingu í fyrrahaust. En keyrt hefur um þverbak í tíð þeirrar stjórnar, sem nú situr.

Afdrifaríkust eru skaðlegu áhrifin af sífelldum breytingum ríkisvaldsins á því umhverfi, sem fyrirtæki og fjölskyldur hrærast í. Enginn getur tekið skynsamlega ákvörðun í dag, af því að ríkisstjórnin verður á morgun búin að breyta aðstæðunum, sem byggt var á í dag.

Stjórnvitringar hafa ætíð lagt mikla áherzlu á, að ríkisstjórnir stuðli að stöðugleika, færi borgurum landsins frið. Þess vegna hefur jafnan verið talin helzta skylda ríkisvalds að hafa hervarnir til að tryggja jafnvægið út á við og löggæzlu til að tryggja frið og ró innanlands.

Kínverski vitringurinn Lao Tse sagði, að sú ríkisstjórn væri góð, sem léti fólkið í landinu í friði. Hann sagði ennfremur, að til séu svo góðar ríkisstjórnir, að fólkið í landi þeirra viti ekki, að þær séu til. Í þessu felst ágæt lexía handa íslenzkum stjórnmálamönnum.

Svisslendingar eru þjóðin, sem kemst einna næst kenningum Lao Tse. Þar fer svo lítið fyrir ríkisstjórninni, að við verðum að fletta upp í handbókum til að vita, hver er forsætisráðherra. Steingrímur okkar er þekktari í umheiminum en starfsbróðir hans í Sviss.

Gagnsemi forsætisráðherra eykst ekki í réttu hlut falli við þvæluna, sem rennur upp úr honum í fjölmiðlum. Svissneskir stjórnmálamenn kunna sitt fag. Þeir sjá um, að Svisslendingar hafi frið og næði til að raka saman auði, án ótta við athafnagleði ráðamanna.

Hér á landi erum við svo óheppnir að hafa að sinni ríkisstjórn, sem stjórnað er af þremur flokksleiðtogum, sem sameina athyglissýki og athafnasýki. Þeir hafa ómótstæðilega þörf fyrir að tjá sig, sérstaklega í sjónvarpi, og að vera taldir á kafi í athöfnum af ýmsu tagi.

Þegar flokksleiðtogarnir og ráðherrarnir komast ekki nóg að í sjónvarpi, þeysast þeir um landið með málfundi, þar sem þeir fá útrás fyrir það, sem þeir telja vera ræðusnilld. Í sjónvarpi og á málfundum þessum eru þeir svo sífellt að lýsa yfir ráðgerðum breytingum.

Nú orðið er húsnæðislögum og -reglum breytt því sem næst árlega, svo að engar fjölskyldur geta lengur skipulagt fjármál sín fram í tímann. Vísitölulögum og -reglum er breytt á færibandi, gjarna nokkrum sinnum á ári, svo að fáir vita lengur, hvað muni snúa upp í vor.

Einna bezt hefur Guðjón B. Ólafsson, forstjóri Sambands íslenzkra samvinnufélaga, lýst afleiðingunum af athafnasýki íslenzkra ráðherra. Hann gerði það á fundi í síðustu viku. Hann sagði: “Hér rær maður í þannig sjó, að maður verður bæði sjóveikur og ruglaður”.

Guðjón bar saman stjórnarfar á Íslandi og í Bandaríkjunum, þar sem hann starfaði með góðum árangri um árabil. Hann sagðist hafa náð tíu sinnum meiri árangri í starfi þar í landi en hann næði núna hér á landi. Þetta er alvarlegur áfellisdómur yfir athafnasýkinni.

Ríkisstjórnin á að hætta að skipuleggja vexti og vísitölur, krónugengi og húsnæðislánareglur, nýja sjóði ofan á þriggja mánaða gamla sjóði, nýja kvóta ofan á nýlega kvóta, fullvirðisrétt ofan á búmark. Hún á að leyfa þessum þáttum að ráðast af sjálfu sér.

Ríkisstjórninni ber að hætta að gera þjóðina sjóveika og ruglaða af athafnasýki ráðherra. Henni ber að draga sig í hlé og gefa þjóðinni frið til að rækta garðinn sinn.

Jónas Kristjánsson

DV