Þjóðin vill Jón Helgason

Greinar

Jón Helgason landbúnaðarráðherra hefur hvað eftir annað beygt ráðherra Alþýðuflokksins á eins árs ferli ríkisstjórnarinnar. Hér í blaðinu í dag er rakin þessi harmsaga, sem sýnir, að flestar hinna stórtæku fjárkrafna landbúnaðarins hafa náð fram að ganga.

Fjármálaráðherra varð að fella söluskatt af mjólkurafurðum. Hann varð að falla frá niðurskurði útflutningsbóta og niðurgreiðslna. Hann varð að greiða meiri útflutningsbætur og niðurgreiðslur en fjárlög gerðu ráð fyrir. Hann varð að veita fé aukalega í riðuveiki.

Fjármálaráðherra varð að falla frá tollfrelsi grænmetis. Og þegar hann lækkaði verndartolla á innfluttum kartöflum, setti landbúnaðarráðherra margfalt jöfnunargjald á móti og hafði sitt fram. Og núna um daginn varð fjármálaráðherra enn að auka niðurgreiðslurnar.

Þessi skák Jónanna er ójöfn, því að sætabrauðsarmur Framsóknarflokksins, svokallaður Sjálfstæðisflokkur, stendur jafnan með landbúnaði og gegn neytendum og skattgreiðendum, þegar á herðir. Þannig er ekið langsum og þversum yfir Alþýðuflokkinn í stjórninni.

Utan við ríkisstjórn sitja svo stjórnmálaflokkar á borð við Kvennalista og Alþýðubandalag, sem einnig eru andvígir neytendum og skattgreiðendum, þegar hagsmunir landbúnaðar eru í húfi. Því eru ekki horfur á, að linni kverkataki landbúnaðar á þjóðfélaginu.

Allur þorri stjórnmálaflokka landsins styður ekki að ástæðulausu í reynd fjárkröfur landbúnaðarins á hendur neytendum og skattgreiðendum. Þessir tveir hagsmunahópar eiga sér engan málsvara, ­ engin samtök á borð við þau, sem gæludýrin hafa komið sér upp.

Neytendur eru að því leyti verst settir, að þeir hafa að nafninu til samtök, sem heita Neytendasamtök, en standa í veigamiklum atriðum með landbúnaði og gegn neytendum, þegar á reynir. Um þetta vitnar stefnugrein formannsins í nýútkomnu blaði samtakanna.

Þar segir berum orðum, að Neytendasamtökin styðji innflutningsbann á landbúnaðarvörum meðan innlend gæðaframleiðsla sé til í landinu. En svo vill til, að engin ein aðgerð mundi bæta hag íslenzkra neytenda stórfenglegar en einmitt afnám þessa innflutningsbanns.

Einfalt er að minnast smjörsins. Ef það væri keypt á skynsamlegan hátt í útlöndum, mundi það kosta á borði íslenzkra neytenda tíu sinnum minna en smjörið kostar í dag, auk þess sem kostnaður við niðurgreiðslu þess hyrfi alveg úr byrðum íslenzkra skattgreiðenda.

Svo virðist sem Neytendasamtökin telji sér skylt að bætast í hinn fjölmenna hóp verjenda hagsmuna landbúnaðarins, jafnvel þótt það kosti minni áherzlu á hagsmuni neytenda, sem eiga sér formælendur fáa, ekki einu sinni verkalýðsfélögin, þegar til kastanna kemur.

Í grein formanns Neytendasamtakanna er innflutningsbannið sagt vera annað grundvallaratriðið í landbúnaðarstefnu samtakanna. Hitt grundvallaratriðið er yfirstjórn hins opinbera á málefnum landbúnaðarins, en hún er einmitt hin stóra byrðin á herðum neytenda.

Meðan samtök, sem kalla sig Neytendasamtökin, haga sér eins og útibú frá landbúnaðinum, er engan veginn unnt að vona, að öflugir stjórnmálaflokkar sjái sér hag í að hætta að sparka í neytendur, þegar hagsmunir þeirra og landbúnaðarins stangast á.

Niðurstaðan er, að þjóðin styður landbúnað gegn neytendum og skattgreiðendum. Ráðherrar, sem halda annað, verða að beygja sig fyrir Jóni Helgasyni.

Jónas Kristjánsson

DV