Peter Preston segir í Guardian, að Bush og Blair geti ekki huggað sig við, að ýmsar ríkisstjórnir í heiminum hafi látið eða muni láta af andstöðu sinni við Íraksstríðið að því loknu. Almenningur í þessum löndum hafi ekki gleymt og muni ekki gleyma niðurlægingunni, sem hann og ríkisstjórnir þeirra hafa þurft að sæta af hálfu Bandaríkjaforseta. Preston, sem lengi hefur verið einn helzti framámaður í alþjóðasamtökum vestrænna ritstjóra, segir, að fjölmiðlamenn, sem hann hefur nýlega hitt úr öllum heimshornum, séu eftir stríðið reiðari en nokkru sinni fyrr. Hann telur, að þjóðir hafi fílsminni og að heimurinn muni aldrei fyrirgefa Bush og Blair þetta stríð.