Þjóðlegt klúður

Greinar

Þegar þjóðhátíðarnefnd og lögregla eru skömmuð fyrir að klúðra nokkrum mikilvægustu þáttum þjóðhátíðarinnar á Þingvöllum, gæta gagnrýnendur þess ekki, að við undirbúninginn var beitt þjóðlegum vinnubrögðum, í samræmi við áratuga hefð í pólitík og atvinnulífi.

Söguleg hefð er fyrir því, að ábyrgðarmenn stórmála megi skokka með allt á hælunum um víðan völl í nokkurn veginn takmarkalausri bjartsýni. Við þekkjum þetta úr laxeldi og loðdýrarækt og við munum eftir skuttogaraæðinu mikla, svo og öllum milljarðasjóðum ríkisins.

Aðferðafræðin er gamalkunn. Í nefnd eða ráð eða sjóð eru skipaðir nokkrir þjóðkunnir menn, sem maður mundi ekki einu sinni þora að senda út í bakarí eftir brauði. Þeir láta búa til fyrir sig ævintýralegar ráðagerðir litprentaðar um að láta smjör drjúpa af hverju strái.

Eitt frægasta dæmið um þennan víðáttumikla og landsföðurlega barnaskap er tugmilljarða sjóðasukk ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, sem áratugum saman verður þjóðinni þung byrði. Í eðlilegu framhaldi af þessu var Steingrímur gerður að seðlabankastjóra.

Þjóðhátíðarklúðrið var raunar tiltölulega afmarkað. Sumt gekk upp. Til dæmis var framleidd vara, sem seldist. Fólk vildi sækja hátíðina og reyndist njóta hennar. Og hátíðin var ekki dýr á mælikvarða ríkissukksins, kostaði ekki nema um það bil hundrað milljónir króna.

Þjóðhátíðarnefnd og afreksmenn hennar unnu þjóðlega að málum, þegar ákveðið var að kasta umferðarvandanum aftur fyrir sig og auglýsa glæsilegar móttökur fyrir sextíu til áttatíu þúsund manns á Þingvöllum. Það er ekki til íslenzk hefð fyrir að reikna dæmi til enda.

Útlendingar hefðu sett einvald yfir framkvæmdir og rekstur á öllum þáttum þjóðhátíðar. Þeir hefðu látið gera reiknilíkan um flæði bíla á tímaeiningu og um aðgang tugþúsunda manna að salernum. Þeir hefðu fundið flöskuhálsana í skipulaginu og rutt þeim úr vegi.

Vegarspottar hefðu verið lagðir og þunga létt af viðkvæmustu krossgötum. Þyrlur hefðu verið notaðar fyrir fína fólkið. Almenningur hefði verið varaður við og sagt að leggja af stað með miklum fyrirvara. Þyrlur og farsímar hefðu verið notaðir til að sjá hnúta og leysa þá.

Svo virðist sem smákóngarnir, er réðu ríkjum á ýmsum sviðum þjóðhátíðar, hafi ekki haft neina sýn yfir ferli klúðursins. Í stað þess að kalla á almannavarnir eða bara hrópa á hjálp, römbuðu þeir um völl í glýju frá stórmennum og létu sig kannski dreyma um fálkaorðu.

Að baki klúðursins eins og svo margra séríslenzkra vandræða á síðustu áratugum er sannfæring valdamanna um, að ekki þurfi að vinna af nákvæmni og með fyrirvara að smáatriðum, heldur muni allt reddast að lokum, þegar hugurinn hefur fyrst borið þá hálfa leið.

Óbilandi bjartsýni og stórhugur eru kostir og gallar í senn. Við undirbúning og framkvæmd þjóðhátíðar fengu þessi þjóðareinkenni útrás í báðar áttir í senn. Og að leiðarlokum kom auðvitað í ljós, að enginn bar ábyrgð á neinu, sem er auðvitað þjóðareinkenni númer eitt.

Sérstök nefnd verður skipuð til að hvítþvo málsaðila og kenna þjóðinni sjálfri um klúðrið, enda hafi hún ekki ákveðið fyrr en á síðustu stundu að bregða sér á þjóðhátíð. Þetta verður niðurstaða við hæfi, enda hefur þjóðin jafnan stutt bjartsýni og stórhug valdamanna sinna.

Kjósendur ættu að minnsta kosti ekki að vera lengi gramir, því að þeir hafa jafnan verðlaunað valdamenn fyrir margfalt dýrara klúður en þjóðhátíðin var.

Jónas Kristjánsson

DV