Breyttir tímar eru í hestaferðum á fjöllum síðan rúmgóðir trússbílar leystu þröngar trússtöskur af hólmi. Fararstjórar, sem Eiðfaxi talaði við, eru flestir orðnir vanir veizlumat í hestaferðum, yfirleitt í þjóðlegri kantinum. Lýsingar þeirra á mataræði á fjöllum fara hér á eftir.
Andreas Bergmann:
Yfirleitt reynum við að hafa lúxusmat í löngum hestaferðum, með matseðli fyrir hvern dag, enda veldur bíllinn því, að ekki þarf að spara rúmmál eða þyngd. Þegar fólk er orðið vant að kaupa inn fyrir ferðirnar, verða ekki afgangar. Mér finnst matarreikningurinn verða furðanlega lítill liður, þótt ekkert sé til sparað.
Við grillum kjöt á grind og eldum heil læri vafin í ál og alls konar annan veizlumat. Með þessu höfum við mikið grænmeti og sósur. Á morgnana erum við með hefðbundið hlaðborð eins og á hótelum, en erum hætt að hafa hafragraut með súru slátri, af því að menn urðu leiðir á að þvo upp eftir hann
Árni Ísleifsson:
Bezt finnst mér að hafa kjarngóðan mat, grillað kjöt af ýmsu tagi, kjötsúpa, svo og reykt og saltað lambakjöt. Fisk er gott að hafa í bland, en hann geymist ekki vel, nema þá saltfiskur. Ég hef tekið eftir því í ferðum, að þeir, sem eingöngu borða grænmetisfæði, eru yfirleitt grindhorað fólk, sem er miklu úthaldsminna en aðrir, ef eitthvað er að veðri. Á morgnana finnst mér hafragrautur beztur. Hann fer vel í maga. Venjulega tek ég með mér brauðsneiðar í nesti yfir daginn.
Bjarni E. Sigurðsson:
Mér finnst gott að hafa góðan mat í hestaferðum. Eftir langan reiðdag er gott að hlakka til að fá góðan mat. Það er það síðasta, sem maður sparar á ferðalögum. Fólk leggur meira í mat í hestaferð en það mundi gera heima hjá sér. Og svo er reynslan sú, að margir eru latir við að smyrja sér á morgnana og eru orðnir svangir, þegar kemur að kvöldmatnum. Sjálfur tek ég brauð með púðursykri í vasann.
Helzt vil ég steikur og fisk á kvöldin, saltkjöt og kjötsúpu, svo og hangikjöt helzt einu sinni í ferð. Morgunmatur þarf að vera á hlaðborði eins og á góðu hóteli. Kokkurinn þarf að vera glaður og listfengur, svo að maturinn verði fallegur. Mér finnst bezt að hafa sérstakan kokk, heldur en að skipta eldhúsverkum milli þreyttra ferðalanga. Þreyttur maður getur ekki búið til góðan mat. Oft er þetta sami maðurinn, sem keyrir bílinn, ef ferðirnar eru ekki þeim mun fjölmennari.
Einar Bollason:
Ég kýs mér helzt kjarnmikinn íslenzkan mat hefðbundinn, svo sem steiktan fisk, fiskibollur, kjötsúpu, saltkjöt og baunir, buff eða hakk og grillað lambalæri á síðasta degi. Mér finnst gott að hafa mikið grænmeti með. Ég legg mikið upp úr góðum morgunmat með mörgum tegundum af áleggi og finnst hafragrautur vera alveg ómissandi. Eini gallinn við hann er, að hann fyllir svo vel, að maður er í vandræðum með að borða eitthvað annað eftir hann. Svo finnst mér gott að stinga ávexti og einni samloku í vasann.
Guðbrandur Kjartansson:
Til matar höfum við saltkjöt, svið, hangikjöt, kjötsúpu, grillkjöt, svona íslenzkt kjarnafæði. Við viljum hafa það þjóðlegt til fjalla. Á morgnana er hafragrautur, súrmjólk og morgunkorn.
Hannes Einarsson:
Í fyrstu ferðinni eyðilagðist mestallur maturinn af fyrirhyggjuleysi okkar og við lifðum dögum saman á niðursoðnum kartöflum. Ég léttist um átta kíló. Mér veitti ekki af að komast í slíka ferð aftur. Annars er ég mest fyrir hefðbundinn, íslenzkan mat, kjötsúpu, hangikjöt, saltkjöt, flatkökur og harðfisk. Ég er ekki fyrir pasta. Á morgnana borða ég helzt brauð og álegg, kornflex og ab-mjólk. Ég mundi ekki vilja egg og beikon.
Haraldur Sveinsson:
Við höfum mest hafragraut og slátur á morgnana og grillmat eða hangikjöt á kvöldin. Oftast eldum við sjálf, en til að keyra bílinn höfum sérstakan mann, sem ekki er í reiðinni.
Hjalti Gunnarsson:
Mest er ég fyrir lambakjöti í matinn á ferðalagi, alla vega eldað, grill, súpukjöt, saltkjöt og hangikjöt. Á morgnana er ég mest fyrir hafragraut,slátur og lýsi. Sem viðlegubúnað nota ég sæng í seinni tíð, því að það er oft of heitt í skálum fyrir svefnpoka. Yfirleitt er ég með kort og lesefni, sem tengist ferðinni og stundum með óviðkomandi lesefni.
Kristjana Samper:
Við kaupum saman inn fyrir ferðina eftir að hafa útbúið matseðil fyrir alla dagana. Í ferðinni elda ég svo sjálf með hjálp annarra í hópnum. Ég undirbý oft kvöldmatinn, áður en við leggjum af stað á morgnana, svo að ég er fljót að ljúka eldamennskunni á kvöldin. Sums staðar er hægt að ná í nýjan fisk. Við notum þó meira frystan fisk, sem er geymdur í frystiboxum, sem eru tengd við rafmagnið í trússbílnum. Ég man eftir skötusel, sem enn var hálffrosinn eftir tíu daga ferð.
Við erum með lambakjöt, læri, kótilettur og kjötsúpu. Við erum alltaf með stífan fisk, lax, lúðu og skötusel. Við byrjum á nýjum og viðkvæmum mat og tökum síðar það frosna. Við notum mikið af grænmeti, heilan kassa af tómötum, eggaldin, paprikur, púrrur. Ég grilla grænmetisrétti. Við erum alltaf með sojabaunir í chili con carne og aðra baunarétti. Þá legg ég baunirnar í bleyti að kvöldi, sýð þær að morgni og geymi í boxi til kvölds. Við matreiðum saltfisk um það bil tvisvar í löngum ferðum, eftir ýmiss konar spænskum aðferðum.
Á morgnana höfum við oft katalónskan morgunmat á borð við eggjakökur, svo og súrmjólk, músli og síld. Svo höfum við súrdeigsbrauð og ítölsk brauð, sem eldast vel. Við ristum brauðið, þegar það er orðið gamalt, svo að það er alltaf eins og nýtt. Í lengstu ferðum höfum við fengið Mosfellsbakarí til að senda okkur brauðpakka inn í miðja ferð.
Ólafur B. Schram:
Í morgunmat höfum við aðallega brauð og álegg, súrmjólk og músli, sjaldan hafragraut. Á kvöldin er oftast kjötmeti, grillmatur til hátíðarbrigða fyrst og síðast í ferðinni, en á milli kjötsúpa, saltkjöt, unnin kjötmtur og dósamatur, þegar við höfum verið lengi í óbyggðum. Bannað er að fara í búðir, eftir að reið er hafin. Ef menn hafa keypt of lítið af tóbaki, gosi eða brennivíni, verða þeir bara að hafa það.
Valdimar K. Jónsson:
Við erum mest með hefðbundinn íslenzkan mat á borð við hangikjöt og kjötsúpu, svo og bjúgu, með dósamat í bland. Oft kryddum við kjöt ofan í fötu til að grilla. Á morgnana erum við með hafragraut, súrmjólk, brauð og álegg, blóðmör og lifrarpylsu. Þá smyrjum við okkur líka nesti fyrir daginn, nema jeppinn flytji okkur hressinguna, sem er þægilegast.
Viðar Halldórsson:
Mér finnst gott að hafa hefðbundinn mat á ferðalögum, súpukjöt og grillmat, jafnvel hangikjöt. Ég mundi grennast, ef pasta væri á boðstólum.
Þormar Ingimarsson:
Mest hef ég notað hágæðafæði, einkum lambakjöt, en líka lax, bleikju og lítillega kjúkling. Saltkjöt og hangikjöt hefur vikið fyrir grillmat. Kjötið er kryddlegið í loftþéttum umbúðum og geymist vel. Í lengri ferðum látum við oft senda okkur matarpakka á miðri leið. Í morgunmat er mest brauð og álegg, en einnig mjólkurvörur og kornmatur.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 8tbl. 2003