Þjóðnýtt sjávarsíða

Greinar

Á vegum ríkisstjórnarinnar hefur að undanförnu verið gælt við hugmyndir um að þjóðnýta sjávarútveginn. Það yrði framkvæmt á þann hátt, að bankar eignuðust atvinnuveginn smám saman með því að breyta lánum til sjávarútvegs í hlutabréf hjá skuldunautunum.

Hugmyndirnar voru til umræðu í svokallaðri niðurfærslunefnd, sem meðal annars var skipuð efnahagsráðunauti ríkisstjórnarinnar, formanni bankastjórnar Seðlabankans og nokkrum fleiri embættismönnum, sem aldir eru upp á stjórnarskrifstofum í Reykjavík.

Þessar hugmyndir hafa ekki vakið verðskuldaða athygli. Þó hefur óbeint verið tekið undir þær í Alþýðusambandi Íslands. Forseti þess lagði til í fyrradag, að ríkið eignaðist 20% af hlutafé fyrirtækja í sjávarútvegi og fengi tvo menn í stjórn sérhvers þeirra.

Væntanlega verða þjóðnýtingaráformin lögð til hliðar að sinni. En þau eru engan veginn dauð, því að miklir valdamenn standa að baki þeirra, þar á meðal tveir hinir valdamestu þeirra og ráðuneytisstjóri sjávarútvegsins að auki. Allir starfa þeir í umboði ríkisstjórnarinnar.

Ennfremur eru miklir hagsmunir að baki. Hugsið ykkur, hve margir pólitískir auðnuleysingjar í Reykjavík gætu fengið stjórnarstóla í fyrirtækjum úti um allt land, ef þjóðnýtingin yrði að veruleika. Þetta er þverpólitískt áhugamál, sem ekki má vanmeta.

Jarðvegur slíkra hugmynda virðist góður um þessar mundir. Í gær stakk Þjóðviljinn upp á, að stóreignamenn yrðu gerðir gjaldþrota á tíu árum með því að taka af þeim 10% eignanna á hverju ári. Þetta er sama aðferð og beitt var við þjóðnýtingu austan járntjalds.

Tvö atriði hafa umfram önnur fleytt sjávarútveginum upp á sker þjóðnýtingaráforma á vegum núverandi ríkisstjórnar. Annað atriðið liggur í augum uppi. Það er, að áratugum saman hefur rangri gengisskráningu verið beitt til að flytja fjármagn úr sjávarútvegi.

Hitt atriðið hefur dulizt flestum hingað til. Það er, að allra síðustu árin hefur sjávarútvegsráðherra byggt upp skömmtunarkerfi, sem beitir kvótum og nú síðast næturlöngum biðröðum til að flytja völd og ábyrgð úr sjávarplássunum inn á stjórnarkontóra í Reykjavík.

Margoft og einkum í þessu dagblaði hefur verið bent á, hvað eigi að gera til að snúa við þeirri öfugþróun í sjávarútvegi, sem hér hefur verið lýst. Því miður hefur sjávarútvegsfólk ekki borið gæfu til að taka þær hugmyndir upp og gera að sínum baráttumálum.

Annars vegar er brýnt að taka handaflsvald gengisskráningar af ríkisstjórn og Seðlabanka og koma upp opnum gjaldeyrismarkaði. Þeir, sem afla gjaldeyris, geta þar selt gjaldeyri þeim, sem vilja nota gjaldeyri, og á verði, sem ræðst hverju sinni af framboði og eftirspurn.

Hins vegar er brýnt að taka upp sölu veiðileyfa til þeirra, sem hæst bjóða, og leyfa frjálsan markað með hin seldu leyfi, svo að heilbrigð rekstrarsjónarmið geti tekið við af miðstýringu kvótakerfisins. Þetta er ekki síður brýnt en afnám opinberrar gengisskráningar.

Því miður skilur fólkið við sjávarsíðuna ekki kosti þess, að sala veiðileyfa leysi kvótakerfið af hólmi. Þaðan koma jafnan harðvítug mótmæli, þegar minnzt er á veiðileyfasölu eða auðlindaskatt. Þetta er skilningsleysið, sem hefur framkallað skömmtunarvald í Reykjavík.

Meðan sjávarsíðan sér ekki og skilur ekki hagsmuni sína, er ljóst, að sjávarútvegurinn mun halda áfram að síga niður í þjóðnýtinguna, sem bíður á næsta leiti.

Jónas Kristjánsson

DV