Þjóðskjöl í port og skúra.

Greinar

Fyrir rúmum áratug gaf þjóðin sjálfri sér þjóðarbókhlöðu í ellefu alda afmælisgjöf. Þá var meiri menningarleg reisn yfir ráðamönnum þjóðarinnar en síðar varð. Fjárveitingar til rauða kastalans á Melunum hafa dregizt saman ár eftir ár og eru nú orðnar að engu.

Í fjárlagafrumvarpi komandi árs var upphaflega gert ráð fyrir fimm milljón króna fjárveitingu til byggingarinnar. Sú fjárhæð, sem var til málamynda, var þó yfirlýsing um, að ekki hefði alveg verið gefizt upp. Hún hefur nú verið strikuð út úr frumvarpinu.

Sverrir Hermannsson stendur því andspænis þeirri staðreynd við upphaf ferils síns sem menntamálaráðherra, að þjóðargjöfin sjálf hefur verið viskuð út úr fjárhagsáætlun ríkisins. Hann hefur í þessu orðið að lúta lægra en nokkur fyrirrennara hans á liðnum áratug.

Einn helzti kosturinn við Þjóðarbókhlöðuna átti á sínum tíma að vera, að gamla og fallega safnahúsið við Hverfisgötu yrði að þjóðskjalasafni, þegar Landsbókasafnið flytti brott. Þar kúrir Þjóðskjalasafnið nú úti í horni við þröngan kost sem eins konar próventukarl.

Safnahúsið er teiknað og byggt sem safnahús, meðal annars með frægum lestrarsal, sem mundi henta ættfræðingum og öðrum grúskurum og viðskiptavinum Þjóðskjalasafnsins afar vel. Sú skipan málsins er raunar svo sjálfsögð, að óþarfi ætti að vera að ræða aðrar.

Nýjar hugmyndir um að nota húsið frekar undir skrifstofu forsætisráðherra eða sem dómhús Hæstaréttar eru mun lakari. Húsið er að vísu nógu virðulegt til að sóma sér í slíkum hlutverkum, en innri skipan þess sem safnahús færi forgörðum. Slíkt væri óbætanlegur skaði. Þessar hugmyndir eru aðeins nothæfar í máttlausri tilraun menntamálaráðherra að verja fáránleg, ólögleg og ósiðleg kaup hans á porti og fokheldum skúrum Mjólkursamsölunnar á 110 milljón krónur til notkunar fyrir Þjóðskjalasafnið, – til að þóknast landbúnaðinum.

Venja er að veita heimild til slíkra kaupa á fjárlögum. Í þetta sinn er engin slík heimild til, þannig að kaupin eru hrein valdníðsla af hálfu ráðherrans. Málið hefur hvorki verið rætt í fjárveitinganefnd né á Alþingi, hvað þá að nokkur samþykkt hafi verið gerð í málinu.

Fyrir utan ólögmætið er afar ósiðlegt af ráðherra, sem stendur að eigin sögn “blóðugur upp að öxlum” við að skera niður menningarstofnanir á borð við Þjóðarbókhlöðu og Listasafn, að kasta stórfé í einhverja gagnkvæma greiðasemi stjórnarflokkanna.

Ofan á ólögin og ósiðinn bætist svo hið fáránlega. Hin gamla aðstaða Mjólkursamsölunnar við Laugaveginn hentar ekki sem þjóðskjalasafn, – enn síður en Víðishúsið í nágrenninu hentar sem menntamálaráðuneyti, námsgagnastofnun og skólavörubúð.

Ráðuneytið hefur ekki efni á að innrétta Víðishúsið, enda kostar slíkt meira en að byggja nýtt hús. Hið sama verður uppi á teningnum í Mjólkursamsölunni. Ekki verður hægt að geyma þjóðskjölin í fokheldum bílskúrum og stóru porti, sem helzt gæti hentað timburverzlun.

Það væri í stíl við kaupin, að þjóðskjólunum yrði dreift um portið og síðan malbikað yfir einu sinni á ári. Fornleifafræðingar framtíðarinnar gætu þá grafið sig í gegnum hvert lagið á fætur öðru eins og í Tróju.

Auðvitað er vitrænna að nota peningana í að ljúka Þjóðarbókhlöðunni, svo að Þjóðskjalasafnið geti hreiðrað um sig, þar sem það á heima.

Jónas Kristjánsson

DV