Þjófadalir

Frá Árbúðum á Kili að Hveravöllum á Kili.

Þetta er vestari reiðleiðin yfir Kjöl, um Þjófadali. Eystri leiðin liggur um Svartárbotna og Kjalhraun. Bílvegurinn liggur svo enn austar. Lengst af fylgir leiðin Fúlukvísl. Í Hrefnubúðum eru birkileifar í 500 metra hæð. Í Þjófadölum er graslendi. Annars staðar er farið um þýft land og hraun. Þjófadalir eru huliðsheimar, þar sem talið er, að útilegumenn hafi búið. Rauðkollur gnæfir yfir dalnum. Gott skjól er í dalnum. Hann er í 700 metra hæð, en eigi að síður gróinn lyngi, víði og stör. Ekki má nota dalinn sem beitiland fyrir ferðahesta, heldur verða menn að fara þar viðstöðulaust í gegn. Sjá líka slóðina Hvinverjadalur.

Förum frá skálanum í Árbúðum vestur yfir ána og síðan norður yfir þjóðveginn inn á reiðslóð til norðurs að Fúlukvísl undir Hrefnubúðum. Förum síðan slóð norður með ánni, austan Baldheiðar og Þverbrekknamúla. Áfram norður fyrir Kvíslarmúla og beygjum síðan til vesturs um Hlaupið í stefnu á Fremra-Sandfell. Beygjum þar til norðurs í stefnu á Þjófafell og förum síðan inn skarðið milli þess að austanverðu og Þverfells að vestanverðu. Þar komum við inn í Þjófadali í 680 metra hæð. Við förum svo yfir Þröskuld í botni dalsins, þar sem við náum 760 metra hæð. Áfram förum við norður með Þjófadalafjöllum, um Sóleyjardal og Miðdali, þar sem við förum vestan og norðan við Stélbratt. Loks förum við austur um Tjarnardali að hesthúsunum á Hveravöllum.

41,9 km
Árnessýsla

Skálar:
Árbúðir: N64 36.553 W19 42.235.
Þjófadalir: N64 48.893 W19 42.516.
Hveravellir : N64 51.960 W19 33.260.
Hveravellir eldri: N64 52.013 W19 33.756.

Nálægir ferlar: Hvítárvatn, Stélbrattur, Guðlaugstungur.
Nálægar leiðir: Kjalfellsleið, Svartárbotnar, Krákur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson