Forgöngumenn íslenzkrar spillingar sitja á Alþingi. Þeir hafa ákveðið að hækka laun sín langt umfram aðra aðila og stela mestum hluta hækkunarinnar undan skatti. Það gera þeir með því að búa til ímyndaðan 40.000 króna mánaðarlegan kostnað, án nokkurra reikninga að baki.
Þar með hafa alþingismenn ákveðið að láta önnur skattalög gilda um sig en almenna borgara. Aðrir landsmenn þurfa að gera grein fyrir kostnaði, sem dregst frá tekjum þeirra, áður en reiknaður er skattur af þeim. Hér gilda framvegis tvenn lög um tvær þjóðir í landinu.
Skattfrelsi 40.000 krónanna er allt annað og alvarlegra en skattfrelsi dagpeninga ríkisstarfsmanna. Hinir síðarnefndu fá bara dagpeninga, þegar þeir eru á ferðalögum og hafa af því kostnað. Hinir fyrrnefndu fá 40.000 krónurnar, þótt ekki beri þeir krónu í útgjöld á móti.
Það eina, sem líkja má við nýjustu skattsvik alþingismanna, eru dagpeningar, sem ráðherrar og makar þeirra fá á ferðalögum erlendis ofan á allan sannanlegan kostnað af ferðum þeirra. Ráðherrarnir brutu þannig ísinn í skattsvikum og nú fylgja minni þjófarnir í kjölfarið.
Hvort tveggja væri óhugsandi í vestrænum lýðræðisríkjum. Aðeins hér á landi eru stjórnmálamenn svo rotnir, að þeir lögfesta skattamisræmi, sem er í stíl við það, er hleypti frönsku stjórnarbyltingunni af stað fyrir rúmlega tveimur öldum og innleiddi lýðræði í Evrópu.
Alþingismenn verða ekki dregnir fyrir dómstóla fyrir að stela hver um sig 480.000 krónum á ári undan skatti. Þeir setja sjálfir lögin, sem skattsvikin byggjast á. Þeir heyrðu gagnrýnina á skattsvikin þegar í vor og hafa í sumar ákveðið að láta hana sem vind um eyru þjóta.
Nokkrir þingmenn ákváðu samt að taka ekki þátt í þessum lögverndaða stuldi. Þeir hyggjast ekki taka við skattfrjálsum greiðslum án þess að þær séu fyrir sannanlegum útgjöldum vegna starfsins. En þá má telja á fingrum sér, því að þeir eru aðeins um 10% þingmanna.
Siðferði Alþingis hefur minnkað á síðustu árum. Það var aldrei beysið, en er nú orðið að þjóðfélagslegu böli, sem rífur niður innviði þjóðfélagsins, dregur úr trausti og kemur í vegur fyrir nauðsynlega einingu smáþjóðar á erfiðri siglingu um nýjar aðstæður í umhverfinu.
Samsetning Alþingis hefur verið að breytast. Fækkað hefur eiginlegum stjórnmálamönnum í hefðbundnum skilningi og til sögunnar komið fyrrverandi bæjarstjórar og aðrir atvinnumenn í milligöngu um útvegun opinberra peninga heim í hérað. Sköffurum hefur fjölgað.
Því miður er ekki líklegt, að kjósendur muni eftir þeim fáu þingmönnum, sem ekki vilja svíkja undan skatti 40.000 krónur á mánuði og 480.000 krónur á ári. Þeir munu áfram kjósa skaffarana, sem hafa farið inn á nýjar slóðir í hinni séríslenzku pólitísku spillingu.
Þjófunum á Alþingi hefur í sumar gefizt tími til að átta sig á, að þeir munu komast upp með verknaðinn. Hin háværa gagnrýni hefur takmarkaða útbreiðslu meðal fólksins í landinu. Margir líta á skattsvikin sem eðlilega tilraun þingmanna til að bjarga sér í lífinu.
Þótt þingmenn komist þannig til skamms tíma upp með að stela undan skatti með hjálp starfsmanna Alþingis og embættis ríkisskattstjóra, komast þeir ekki undan því að verða dæmdir af sögunni. Í framtíðinni verða þingmenn nútímans stimplaðir sem hverjir aðrir þjófar.
Þjófarnir á þingi verða um síðir að svara til saka sagnfræðinnar fyrir að hafa grafið undan þjóðskipulaginu með því að semja lög um, að sérlög gildi fyrir sig.
Jónas Kristjánsson
DV