Þjónusta við lesendur

Greinar

DV hefur ekki mælt með neinum framboðslista við kosningarnar í Reykjavík og mun ekki gera það, enda hefur það ekki verið venja blaðsins, hvorki í alþingiskosningum né byggðakosningum. Rangar fullyrðingar fjölmiðla um annað stafa af samkeppnisástæðum.

DV hefur hins vegar tekið virkan þátt í aðdraganda kosninganna. Blaðið hefur reynt að þjónusta lesendur sína á ýmsan hátt. Reykjavík hefur verið efst á baugi, enda eru kjósendur þar langflestir og spennan að þessu sinni einna mest. Þessu hlutverki er að mestu lokið.

Venja blaðsins hefur verið að ljúka kosningaundirbúningi að mestu viku fyrir kjördag, svo að lesendur blaðsins hafi síðustu vikuna griðland í skæðadrífu áróðurs og upplýsinga, sem einkennir flesta aðra fjölmiðla þessa síðustu viku. Þessi hefð verður í heiðri höfð.

Enn er eftir að birta síðustu skoðanakönnun blaðsins um úrslit kosninganna í Reykjavík. Niðurstaðan er ekki flóknari en svo, að hana er hægt að túlka nú, enda hefur tala óákveðinna og þeirra, sem vilja ekki tjá sig, verið með minnsta móti í síðustu könnunum blaðsins.

Ef listi nær 48% atkvæða í könnun blaðsins í vikunni, hefur hann litlar líkur á meirihluta í Reykjavík, en er þó ekki vonlaus. Ef listi nær 52% atkvæða í þeirri könnun, hefur hann miklar líkur á meirihluta, en er þó ekki öruggur. Er þá tekið tillit til hefðbundinna frávika.

Marklítið er að spá í hina óákveðnu, sem verða líklega innan við 25% hinna spurðu. Það verða bara getgátur, enda byggjast þær ekki á neinni fræðimennsku. Hefðbundið og farsælt er að gera ráð fyrir, að þeir skiptist með svipuðum hætti á listana og hinir ákveðnu.

Forsendurnar að baki óákveðnum skoðunum viku fyrir kjördag eru svo margs konar og misvísandi, að yfirleitt hefur verið hægt að sleppa þeim í birtingu niðurstaðna. Reynslan sýnir, að útkoman er yfirleitt mjög nærri lagi, auk þess sem hinir óákveðnu eru núna fáir.

Borgarstjóraefni listanna voru á beinni línu DV í síðustu viku. Svör þeirra voru birt í sérstökum blaðauka á föstudaginn var. Þetta var mikið efni að vöxtum. Þar mátti á einum stað sjá viðhorf þeirra til flestra mála, sem kjósendur hafa mestan áhuga á um þessar mundir.

Daginn áður höfðu borgarstjóraefnin birt síðustu kjallaragreinar sínar í blaðinu fyrir þessar kosningar. Áður höfðu margir aðrir frambjóðendur í efstu sætum listanna látið að sér kveða sem kjallarahöfundar í blaðinu. Reyndist vera jafnvægi milli listanna í þeirri aðsókn.

Síðustu vikur hefur blaðið fylgzt með ferðum borgarstjóraefnanna um borgina, fundum þeirra, uppákomum, heimsóknum og öðru kosningastarfi þeirra. Áður hafði blaðið birt löng viðtöl við borgarstjóraefnin, þar sem fram komu persónulegir þættir í lífi þeirra og starfi.

DV hefur ekki bara haft Reykjavíkurgleraugu á nefi. Blaðið hefur líka birt niðurstöður skoðanakannana í öðrum stærstu bæjum landsins. Það hefur birt viðtöl við frambjóðendur og kjósendur í tugum byggða um allt land. Alltaf hefur jafnvægis verið gætt milli lista.

Þannig er kosningabarátta á fjölmiðli, sem vill láta taka sig alvarlega. Aðrir fjölmiðlar kunna að kjósa að hafa ekki hagsmuni lesenda að leiðarljósi, heldur einhvers þess lista, sem í boði er. Þeir mega það, en DV hefur valið þá leið að þjónusta lesendur og ekki lista.

Þegar hafa birzt í blaðinu meiri en nægar upplýsingar fyrir þá, sem vilja styðjast við slíkt, er þeir gera upp hug sinn fyrir kosningar. Því linnir nú kosningafári í DV.

Jónas Kristjánsson

DV