Þoka á 400 síðum

Greinar

Í annað skipti í röð hafa höfundar fjárlagafrumvarpsins sýnt lesendum þess þann sóma að birta aftast tvær fróðlegar skrár um aukafjárveitingar. Hins vegar er gengið þannig frá skránum, að óþarflega erfitt er að átta sig á, í hvaða skyni fénu er varið.

Sem dæmi má nefna, að í fremri skránni kemur fram, að veitt hefur verið hálfri milljón króna aukalega til “byggingar íþróttamannvirkja”. Til þess að átta sig á, hvað þetta er, þarf að fara í síðari skrána, sem raðað er á allt annan hátt, í tímaröð í stað málaflokkaraðar.

Með þessari fyrirhöfn er hægt að komast að raun um, að þetta er styrkur til eins íþróttafélags. Ennfremur, að ríkið hefur aukalega styrkt hótelin á Húsavík og Ísafirði um hálfa níundu milljón króna og Áburðarverksmiðjuna um hvorki meira né minna en 170 milljónir.

Þetta eru bara örfá dæmi um 150 aukafjárveitingar ársins. Ef markmiðið með birtingu skránna er að auðvelda þingmönnum, blaðamönnum og öðru áhugafólki að skilja ríkisfjármálin, væri aðgengilegra að sameina þær í eina skrá, sem skýrði innihald fjárveitinganna.

Enn er verið að fela liði í fjárlagafrumvarpinu. Sem dæmi má nefna sérstakt gæludýr ríkisins, Lífeyrissjóð bænda. Í atriðisorðaskrá er vísað til hans í kafla fjármálaráðuneytis. Þar kemur fram, að verja eigi 34 milljónum króna til þessa nauðsynjamáls á næsta ári.

Ætla mætti, að þar með væri öll sagan sögð. Kunnugan mann og þjálfaðan í lestri fjárlagafrumvarpa þarf til að átta sig á, að Lífeyrissjóður bænda á samkvæmt frumvarpinu einnig að fá 22 milljónir króna hjá landbúnaðarráðuneytinu undir liðnum: “Stofnlánadeild”.

Enn má leita í 400 blaðsíðum frumvarpsins og finna, að samkvæmt því á þessi vinsæli sjóður að fá 112 milljjónir króna hjá viðskiptaráðuneytinu undir liðnum: “Niðurgreiðslur á vöruverði”. Samtals fær sjóðurinn því 168 milljónir, en ekki 34, svo sem gefið er í skyn.

Tveir aðrir forgangssjóðir eru lífeyrissjóðir alþingismanna og ráðherra. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir ári mátti með lagi finna, að 33 milljónum króna átti í ár að verja til þeirra undir liðnum: “Uppbætur á lífeyri”. Þetta er ekki lengur hægt í nýja frumvarpinu.

Á þessu sviði eykst þoka frumvarpsins, enda er sennilegt, að einstæð gjafmildi fjárlagafrumvarpsins í garð hinna fátæku lífeyrissjóða alþingismanna og ráðherra sé orðin að slíku feimnismáli, að hennar megi ekki einu sinni geta lengur í skýringum aftarlega í bókinni.

Enn eitt þokudæmið felst í styrkjum til flokkspólitískrar blaðaútgáfu. Í einni línu frumvarpsins er 16 milljónum varið “til blaðanna” og í annarri línu 10 milljónum “til útgáfumála”. Í þriðju línunni er fjármálaráðherra heimilað að kaupa 250 eintök af hverju blaði.

Þannig er reynt að dylja, að samtals eiga þessir styrkir að nema 32 milljónum króna á næsta ári. Ekki er síður athyglisvert, að 250 eintaka kaupin eru jafnan heimildarákvæði, sem koma ekki fram í niðurstöðutölum, þótt þau séu fastur kostnaður ríkisins.

Spyrja má einnig, hvers vegna ýmsir merkustu liðir frumvarpsins eru settir fram án krónutalna í heimildarákvæðum. Ennfremur, hvers vegna niðurgreiðslur á búvöruverði eru settar á viðskiptaráðuneytið í trássi við leiðbeiningar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Þetta eru dæmi um, að á 400 síðum fjárlagafrumvarpsins er víða – og sumpart í auknum mæli – fremur reynt að dylja sannleikann heldur en að upplýsa hann.

Jónas Kristjánsson

DV