Þol þorsks og þjóðar.

Greinar

“Við verðum að meta, hvað þjóðarbúið þolir annars vegar og hvað þorskstofninn þolir hins vegar.” Þessi vísdómsorð mælti Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra nýlega í blaðaviðtali um aflatillögur fiskifræðinga.

Samkvæmt orðunum mætti ætla, að þol þjóðarbúsins og þorskstofnsins þurfi ekki að fara saman. Til dæmis kunni þjóðarhagur að krefjast þess, að gengið sé á þorskstofninn, því að þjóðin þoli ekki nema svo og svo mikla tekjurýrnun.

Þorskstofninn fer nú svo ört minnkandi, að í ár munu ekki nást nema tæplega 380 þúsund tonn af þeim 450 þúsundum, sem heimilt var að veiða. Ef stöðva á stofnminnkunina, má ekki veiða nema 300 þúsund tonn á næsta ári.

Auðvitað er það gífurlegt áfall, þegar tölur um leyfilegt aflamagn lækka um þriðjung milli ára. Enda virðist Steingrímur telja, að skárra sé að halda áfram ofveiði á þorski en að taka alla tekjurýrnunina á herðar þjóðarinnar.

Svipuð hugsun er að baki tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar um 350 þúsund tonna aflaleyfi á næsta ári. Stofnunin leggur sem sagt til, að veitt verði 50 þúsund tonnum meira en hún telur sjálf, að þorskstofninn þoli.

Vandséð er, að það sé í verkahring fiskifræðinga að spá um þol þjóðarbúsins eða Steingríms Hermannssonar. Enda væri nú mikið hlegið að Hafrannsóknastofnuninni, ef mönnum væri hlátur í hug í aðvífandi kreppu.

Hafrannsóknastofnunin átti auðvitað að leggja til 300 þúsund tonna þorskafla á næsta ári og láta pólitíska valdið í landinu um að lyfta þeirri tölu upp í það, sem þjóðarbúið þolir að mati Steingríms Hermannssonar.

Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti sem Hafrannsóknastofnunin ruglast í hlutverki sínu. Löngu er orðið tímabært, að Jón Jónsson hætti að leika stjórnmálamann og fari í staðinn að snúa sér að fiskifræðinni.

Nógir eru stjórnmálamennirnir samt og fremstur þar í flokki Steingrímur sá, sem gerir greinarmun á því, sem þjóðarbúið þolir og þorskstofninn þolir. Hann er þjóðinni nægur baggi, þótt Jón forstjóri bætist ekki við.

Ekki þarf mikla greind til að sjá, að auðveldasta leiðin til að setja þjóðarbúið á höfuðið er að halda áfram að ofveiða þorskinn. Það verður ekki mörgum sinnum hægt að veiða 350 þúsund tonn úr 1.500 þúsund tonna heildarstofni.

Sjálfur hrygningarstofninn er kominn niður í 560 þúsund tonn og fer ört minnkandi. Enda eru stórir árgangar alveg hættir að bætast við. Fljótlega verður 300 þúsund tonna ársafli meira að segja of mikill.

Á sama tíma höfum við efni á að fjölga togurum, sem stunda smáfiskadráp og eru svo lengi í veiðiferðum, að gæði aflans minnka. Ennfremur höfum við efni á að gera út netabáta, sem koma að landi með tveggja nátta fisk.

Á sama tíma höfum við efni á fiskvinnslu, þar sem menn virðast ekki hafa hugmynd um, að einhvers staðar á leiðarenda eru neytendur, sem eiga að borga. Morkin og maðkétin skreið er afsökuð með því, að hún sé fyrir Nígeríu!

Ef við færum betur með aflann, hefðum við góð efni á að minnka þorskveiðina niður í það, sem stofninn þolir. Og þol þjóðarbúsins fer eftir þoli þorsksins, hvað sem Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra segir.

Jónas Kristjánsson.

DV