Það getur tekið sinn tíma að framkvæma lýðræði, jafnvel hjá þjóð, sem hefur aðeins fjóra stjórnmálaflokka á þingi. Hugsið ykkur vandamál þeirra lýðræðisþjóða, sem hafa tíu til fimmtán stjórnmálaflokka á þingi. Þar geta stjórnarkreppur orðið mun hastarlegri en hjá okkur.
Við þurfum ekki að örvænta, þótt stjórnarkreppan hafi nú staðið í átta vikur. Ástandið hefur sínar sögulegu og sálrænu skýringar og kallar engan veginn á utanþingsstjórn að viku liðinni eða tveimur. Krafan um utanþingsstjórn er óþolinmóðari en efni standa til.
Leiðir þriggja stjórnmálaflokka af fjórum lágu saman fyrir rúmlega 83 vikum, í þingkosningum ársins 1978. Upp úr þeim var búin til vinstri stjórn með sífelldum garra og stórviðrum. Sumir höfundar þessa samstarfs eru enn að furða sig á, hvað hafi farið úrskeiðis.
Mestur hluti átta vikna kreppunnar hefur farið í lífgunartilraunir vinstri stjórnar. Stjórnmálamenn þurftu að fá þetta tækifæri til að gera upp reikninga vinstri kantsins og sannfæra sjálfa sig um, að vinstri stjórn sé úr sögunni í bili. Og sumir eru raunar ekki sannfærðir enn.
Enn hefur sáralítill tími verið notaður til athugana á myndun hægri stjórnar þriggja flokka. Geir Hallgrímsson velti fremur vöngum yfir þjóðstjórn. Það er raunar Benedikt Gröndal einn, sem hefur fitlað við möguleika á stjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Þrátt fyrir stór og stráksleg orð er lítill munur á efnahagstillögum Framsóknarflokks og Alþýðuflokks. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur fallizt á viðræður um stjórnarmyndun á málefnagrundvelli Alþýðuflokksins. Kreppan er því engan veginn alger eða óleysanleg.
Á síðustu árum hefur Lúðvík Jósepsson einu sinni myndað stjórn fyrir Ólaf Jóhannesson og Ólafur Jóhannesson einu sinni fyrir Geir Hallgrímsson. Þá litu menn svo á, að verkstjóri viðræðna um stjórnarmyndun þyrfti ekki endilega að vera sjálfur forsætisráðherraefni.
Benedikt Gröndal hefur ekki snið forsætisráðherra, allra sízt þegar framundan eru langar og strangar viðræður við Norðmenn um Jan Mayen. Í þær viðræður þurfum við harðlínumann sem forsætisráðherra. Og það hlutverk getur Benedikt Gröndal aldrei leikið.
Ef til vill hefði Benedikt átt að leggja meiri áherzlu á, að hann væri sjálfur ekki endilega forsætisráðherraefnið. Og ef til vill hafði hann bara ekki tíma til þess vegna bráðlætis Steingríms Hermannssonar í að hafna verkstjórn Benedikts.
Steingrímur er líklegasta forsætisráðherraefni hægri stjórnar. Hann hefur hins vegar stefnt svo eindregið í aðra átt, að hann þarf meiri tíma og magnaðri stjórnarkreppu til að geta varið kúvendingu til hægri. Hann verður að geta sagt, að hann hafi ekki átt annars kost.
Fari svo, að frekari viðræður um myndun hægri stjórnar fari út um þúfur, er enn hugsanlegt, að minnihlutastjórn geti starfað með vinsamlegu hlutleysi eins eða fleiri annarra flokka. Stjórnarmynztrin hafa engan veginn verið könnuð til hlítar á átta vikum.
Altjend er það skylda alþingis, með aðeins fjóra flokka um borð, að mynda þingræðislega stjórn, jafnvel þótt einstaka þingmenn hafi látið sér detta annað í hug. Þjóðin verður ekkert frekar á hverfanda hveli eftir tvær eða fjórar vikur en hún er nú. Þetta tekur allt sinn tíma.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið