Þórdalsheiði

Frá Arnhólsstöðum í Skriðdal um Þórudal og Þórdalsheiði að Áreyjum í Reyðarfirði.

Var fyrrum nefnd Jórunnardalsheiði. Jeppafær línuvegur er um heiðina.

Áður var heiðin víða torfær hestum á vetrum, þótt farið væri þar með fjárrekstra. Slys urðu þar á síðari öldum. Séra Þorleifur Guðmundsson á Hallormsstað féll með hesti sínum 1702 um snjóþak á Yxnagili. Guðmundur Marteinsson frá Reyðarfirði varð þar úti í stórviðri á jólum 1811. Síðast varð þar úti Benedikt Blöndal búfræðingur í janúar 1939, þá kominn niður í Skriðdal.

Byrjum við þjóðveg 1 um Skriðdal hjá Arnhólsstöðum. Förum austur eftir vegi 936 inn í Þórudal. Innarlega í dalnum er þverleið austur í Brúðardal. Við förum þverleiðina austur um Brúðardal milli Brúðardalsfjalls að norðan og Tröllafjalls að sunnan. Upp úr dalbotninum förum við norðaustur á Þórdalsheiði í 500 metra hæð við Hvalvörðu og síðan austur með litríku Yxnagili og um Drangsbrekkur niður í Áreyjardal og sunnan ár að Áreyjum í Reyðarfirði.

9,2 km
Austfirðir

Jeppafært

Nálægar leiðir: Stafdalur, Hjálpleysa, Stuðlaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins