Forsætisráðherra sagði í eldhúsdagsumræðunni á mánudaginn, að ekki væri hægt að skera meira niður leyfilegan þorskafla en þegar hefði verið gert. “Við getum ekki tekið stærri dýfur en við höfum þegar tekið,” sagði hann og fullyrti um leið, að stofninn færi vaxandi.
Í raun fer íslenzki þorskstofninn minnkandi um þessar mundir, af því að ekki hefur verið tekið fullt mark á tillögum fiskifræðinga. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins bera mesta ábyrgð á núverandi ofveiði, því að þeir höfðu í fyrra frumkvæði að 8% hækkun á leyfilegu aflamarki.
Forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra eru samflokksmenn eins og var í næstu ríkisstjórn á undan þessari. Þá lék þáverandi forsætisráðherra svipað hlutverk ábyrgðarleysis, þegar hann, sem frægt er, vildi gera greinarmun á því, sem þorskurinn þyldi og þjóðin þyldi.
Sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur hins vegar fetað í fótspor forvera síns í Framsóknarflokknum, en ekki haft innanflokksstuðning til að reka hófsemisstefnu. Helzti andstæðingur hans á því sviði er forsætisráðherra, sem hefur knúið fram skammtímasjónarmiðin.
Grundvallaratriði málsins er, að enginn munur er á því, sem þorskurinn þolir og þjóðin þolir. Ef stundarhagsmunir verða áfram látnir ráða ferðinni, verður þorskstofninn eyðilagður á tiltölulega fáum árum og þjóðfélagið fær loksins að horfast í augu við alvörukreppu.
Hafrannsóknastofnunin mælti í fyrra með 190 þúsund tonna þorskafla á einu ári. Í raun fer þorskveiðin 20% upp úr því magni, í 230 þúsund tonn. Þetta er afleiðing léttúðugra og ábyrgðarlítilla stjórnmálamanna, sem neita að horfast í augu við blákaldan veruleika ofveiðinnar.
Þekkingin, sem bætzt hefur við frá í fyrra, gefur ekki tilefni til bjartsýni. Til dæmis benti togararallið í vetur til, að ekki yrði hægt að veiða nema 150-160 þúsund tonn á ári í nánustu framtíð. Ekki hefur frétzt af neinum upplýsingum, sem bendi til annars en hnignunar stofnsins.
Í sjávarútveginum búast menn við, að Hafrannsóknastofnunin muni í nýjum veiðitillögum lækka tölur sínar frá því í fyrra. Ef farið verður eftir ókomnum tillögum hennar, má búast við, að þorskafli eins árs fari úr 230 þúsund tonnum og nokkuð niður fyrir 180 þúsund tonn.
Pólitísk málamiðlun milli þess, sem fiskifræðingar telja þorskinn þola, og þess, sem stjórnmálamenn telja þjóðina þola, hefur gefizt illa um langt árabil. Þorskstofninn hefur verið í samfelldri úlfakreppu og ekki getið af sér neinn góðan hrygningarárgang í tæpan áratug.
Einn af fræðimönnum okkar sagði nýlega í viðtali við DV, að flotinn væri helmingi stærri en hann ætti að vera. Hann sagði, að friða þyrfti þorskinn alveg til aldamóta og leggja síðan þriðjungi flotans, svo að sóknin yrði bærileg upp úr aldamótum. Hann er að tala um sjö mögur ár.
Gróft reikningsdæmi lítur þannig út, að þjóðin neiti sér samtals um eina milljón tonna af þorski í sjö ár til að koma stofninum upp í stærð, sem þolir 250 þúsund tonnum meiri veiði en hann þolir nú. Þjóðin mundi þá ná milljón tonnunum til baka á aðeins fjórum árum.
Að fara eða fara ekki eftir tillögum fræðinga er dæmigerður munur milli langtímahagsmuna, sem gefa meiri arð í heild, og skammtímahagsmuna, sem felast í að ýta vandamálum á undan sér; skrapa það, sem ekkert er; og vera á sífelldu undanhaldi fyrir veruleikanum.
Vonandi tekst forsætisráðherra ekki að knýja fram hugmyndir um óbreytta ofveiði á þorski, því að þær leiða að lokum til gjaldþrots og glötunar þjóðfélagsins.
Jónas Kristjánsson
DV