Hagfræðikennari við háskólann hefur óbeint varpað fram þeirri spurningu í blaðagrein, hvort Þorsteinn Vilhelmsson í Samherja hafi tapað tveimur milljörðum króna á því að selja rúmlega fimmtung fyrirtækisins fyrir þrjá milljarða króna en ekki fimm milljarða.
Samkvæmt sölunni verðleggja Þorsteinn og Kaupþing, kaupandi bréfanna, fyrirtækið og veiðiheimildir þess á fjórtán milljarða króna. Hagfræðikennarinn hefur hins vegar reiknað út, að verðmæti veiðiheimildanna einna sé tuttugu til tæplega þrjátíu milljarðar króna.
Ef miðað væri við verð á markaði, væri verðgildi heimildanna tæplega fjörutíu milljarðar króna. Reiknimeistarinn telur slíkt jaðarverð hins vegar ekki raunhæft og lækkar verðgildið um nærri helming, en fær samt út misræmi milli þess og sölu bréfa Þorsteins.
Af þessu ályktar greinarhöfundurinn Þórólfur Matthíasson, að kaupverðið endurspegli það álit hlutafjármarkaðarins, að senn verði farið að taka gjald fyrir not af auðlindum sjávar. Þorsteinn og Kaupþing hafi verið sammála um, að miða verð hlutabréfanna við það.
Markaðurinn hefur gnægð tækifæra til að átta sig á, að blómaskeið gjafakvótans í sjávarútvegi mun fyrr eða síðar hníga til viðar, þrátt fyrir harðskeyttan stuðning beggja flokka ríkisstjórnarinnar. Svo mörg vötn falla í farveg endurskoðunar, að viðnámið mun bila.
Í fyrsta lagi er meirihluti þjóðarinnar andvígur gjafakvótanum samkvæmt hverri könnuninni á fætur annarri. Í öðru lagi eru héraðsdómar og dómar í Hæstarétti farnir að falla á þann veg, að gjafakvótakerfi ríkisstjórnarinnar standist ekki stjórnarskrána.
Í þriðja lagi hafa tillögur um annars konar stjórn fiskveiða orðið slípaðri og girnilegri. Pétur Blöndal alþingismaður hefur lagt til, að öllum veiðiheimildum verði dreift til allra landsmanna og áhugahópur þekktra borgara hefur lagt fram tillögur um uppboð heimilda.
Tillögur hópsins eru nánast samhljóða tillögum, sem oft hafa verið viðraðar í leiðurum þessa blaðs. Þær gera ráð fyrir, að núverandi aflaheimildir rýrni um 20% á ári og mismunurinn boðinn út á opnum markaði. Þannig verði uppboðskerfi til í áföngum á fimm árum.
Þessi tillaga kemur heim og saman við mat Þorsteins Vilhelmssonar og Kaupþings á raunverulegu verðgildi núverandi veiðiheimilda. Aðlögunartíminn gæti auðvitað verið styttri eða lengri. Í tillögu Péturs Blöndal er gert ráð fyrir 20 árum eða 5% aðlögun á hverju ári.
Munurinn á tillögu Péturs og áhugahópsins felst aðallega í, að Pétur vill, að afgjald auðlindarinnar renni beint til almennings, en hópurinn vill, að það renni til ríkissjóðs, hugsanlega til að draga úr annarri skattlagningu hins opinbera eða til að lækka skuldir þess.
Tillögurnar fela ekki í sér neinar breytingar, sem draga úr núverandi kostum kvótakerfisins í varðveizlu og viðgangi fiskistofna og í leit sjávarútvegsins að eins mikilli hagkvæmni í rekstri og kostur er á. Allt tal bananakónga um heimsendatillögur er hreint bull.
Nánast má líta á það sem kaldhæðni óumflýjanlegra örlaga, að nánast samtímis leggur hópur þekktra borgara fram tillögu um þjóðnýtingu auðlindarinnar á fimm árum og einn helzti kvótakóngur landsins semur við hlutabréfafyrirtæki um verð, sem endurspeglar þetta.
Hvort þetta gerist hratt eða hægt fer eftir því, hvort Hæstiréttur staðfestir Vatneyrardóminn í ár eins og hann staðfesti Valdimarsdóminn í fyrra.
Jónas Kristjánsson
DV