Þoskkvóti aukist ekki

Greinar

Stjórnvöldum ber að stinga við fótum og fara varlega, þegar hafðar eru uppi kröfur um að auka veiðiheimildir á grundvelli frétta af aukinni fiskgengd. Þar sem hagsmunaaðilar eiga í húfi, ber að taka fréttunum með varúð og hafa hefðbundin langtímasjónarmið í heiðri.

Rannsóknaskip er nú í leiðangri á þorskmiðum Vestfjarða til að kanna málið. Leiðangursmenn hafa þegar fundið stóra og þétta torfu, svo að eitthvað kann að vera til í fréttum um aukna þorskgengd. Þar með er ekki sagt, að tímabært sé að leyfa aukna þorskveiði á svæðinu.

Ekki er hlaupið upp til handa og fóta, þegar minna veiðist en búizt er við. Yfirleitt er beðið til næsta veiðitímabils. Nýjar ákvarðanir um kvóta eru helzt ekki teknar nema einu sinni á ári. Ekki er ástæða til að breyta þessu, þá sjaldan sem meira finnst af fiski.

Veiðikvótasagan í heild sýnir, að yfirleitt hafa veiðiheimildir verið of miklar og fiskistofnar hafa minnkað. Þorskgengd hefur farið síminnkandi á tveimur síðustu áratugum þessarar aldar. Það stafar einfaldlega af ofveiði. Takmarkanir hafa ekki náð fyrirhuguðum árangri.

Hagsmunaaðilar játa þetta óvart, þegar þeir segja núna, að naumur þorskkvóti hafi leitt til svo mikillar ofveiði á karfa og grálúðu, að stofnarnir séu í hættu. Það er nefnilega almenn regla, að kvótar eru yfirleitt of miklir vegna þrýstings frá skammsýnum hagsmunaaðilum.

Ekkert öfugt samband á að vera milli þorskkvóta annars vegar og kvóta á karfa og grálúðu hins vegar. Þótt þorskkvóti minnki, er ekki ástæða til að hleypa hagsmunaaðilum í meiri veiði á karfa og grálúðu. Og ofveiði á karfa og gráðlúðu má ekki leiða til aukins þorskkvóta.

Veiðiheimildir á hverri tegund verða að fara eftir ástandi hennar sjálfrar, en ekki eftir breytingum á heildarkvótum hagsmunaðaaðila. Og veiðiheimildirnar verða að fara eftir langtímasjónarmiðum, sem tryggja frambúðarverðmæti og hámarksafrakstur auðlindarinnar.

Hagsmunaaðilar hafa haldið mörgu fram um ástand fiskistofna og æskilega veiði. Oft hefur verið hlaupið á eftir slíkum fullyrðingum og yfirleitt til skaða. Við skulum því fagna fréttum af auknum þorski og fá stöðuna metna fyrir næsta kvótaár, ekki þetta kvótaár.

Við höfum árum saman mátt þola, að Hafrannsóknastofnun hefur mælt með kvótum, sem eru meiri en sem nemur langtímahagsmunum þjóðarinnar, og að sjávarútvegsráðuneytið hefur síðan gefið út kvóta, sem eru nokkru meiri en þeir, sem stofnunin lagði til.

Mál er, að óhóflegri bjartsýni og áhættuspili fari að linna. Þrátt fyrir þrýsting hagsmunaaðila verða fræðimenn og stjórnmálamenn að hafa bein í nefinu til að hafa árlega veiðikvóta ekki meiri en svo, að stofnar nái að vaxa í þá stærð, sem gefur mestan afrakstur.

Hitt er svo annað mál, að langt er síðan öll rök hnigu að því, að leggja beri niður kvótakerfi og taka upp annars konar skömmtun, með auðlindaskatti eða veiðileyfagjaldi. Leidd hafa verið rök að því, að slík aðferð skili sjávarútveginum meiri arði en kvótakerfið gerir.

Meðan kvótakerfið ríkir er samt nauðsynlegt að fara eftir lögmálum þess og hafa vaðið jafnan fremur fyrir neðan sig en ofan. Þess vegna ber yfirvöldum að vera fljótari að skerða veiðiheimildir en auka þær, þegar breytingar verða á mati fræðimanna á stofnstærðum.

Ekki er því ástæða til að láta taka sig á taugum og auka þorskveiðikvóta, þótt torfur mælist á Vestfjarðamiðum. Betra er að bíða til næsta kvótatímabils.

Jónas Kristjánsson

DV