Þotulið stjórnmálanna

Greinar

Forseti Íslands hefur gagnrýnt ráðamenn frjálsu kvennaráðstefnunnar í Kína fyrir að setja Kínastjórn úrslitakosti um að fara að reglum Sameinuðu þjóðanna um slíkar ráðstefnur, því að henni verði slitið að öðrum kosti. Forsetinn taldi þetta vera stríðsyfirlýsingu.

Samkvæmt þessari skoðun forseta Íslands hefðu vesturveldin hvorki fyrr né nú átt að setja Serbum neina úrslitakosti í Bosníu. Bretar og Frakkar hefðu ekki heldur átt að setja Hitler úrslitakosti við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar. Hún talar eins og Chamberlain gerði.

Samkvæmt skoðun forsetans eiga stjórnarmenn lánastofnunar ekki að setja framkvæmdastjóra úrslitakosti um að hætta að lána út í hött eða hætta störfum að öðrum kosti. Yfirleitt ætti ekki að setja fólki neina úrslitakosti um að fara að lögum og rétti, heldur tala það til.

Það er óskemmtileg tilhugsun að reyna að ímynda sér, hvernig heimurinn væri, ef jafnan hefði verið farin milda leiðin. Og erfitt er að ímynda sér lögreglumenn ganga á eftir þjófi niður Laugaveg og reyna að fá hann til að brjótast inn á færri stöðum og stela minna.

Hitt er svo annað mál, að enginn á að setja fram úrslitakosti, nema hann ætli að standa við þá. Vesturveldin stóðu ekki við úrslitakosti sína í Bosníu og ráðamenn frjálsu kvennaráðstefnunnar í Kína ekki við sína. Þá er betra að fara sér hægt og sleppa úrslitakostunum.

En það var ekki þetta, sem forseti Íslands var að gagnrýna. Hún var ekki að gagnrýna, að fólk stæði ekki við úrslitakosti sína, heldur að það setti yfirleitt fram úrslitakosti. Þannig tala atvinnumenn kurteisinnar, sem búa í heimi friðarhjals og vináttufroðu í skálaræðum.

Kurteisisheimsóknir þjóðhöfðingja og ráðherra eru marklítill leikur, sem fer fram handan raunveruleikans. Þær koma ekki einu sinni á viðskiptum, því að leiðir efnahagslegra framfara liggja ekki um skálaræður kjólfatafólks. Viðskipti fylgja allt öðrum lögmálum.

Nú á dögum biðja viðskipti ekki um annað en að fá að vera frjáls. Um slíkt er fjallað í stofnunum á borð við Evrópusambandið, Efnahagssvæðið og arftaka GATT. Viðskiptakostir okkar fara eftir niðurstöðum í slíkum stofnunum, en ekki eftir friði og vináttu í skálaræðum.

Staða Kína í heiminum og afstaða ráðamanna okkar, jafnt ráðherra sem forseta, minnir í flestum atriðum á samskiptin við Sovétríkin sálugu. Þangað þeyttust menn í langri röð kurteisisheimsókna til að tala um frið og vináttu og viðskipti í alveg marklausum skálaræðum.

Utanríkisráðherra hefur verið með forseta Íslands í þessum kurteisisleik í Kína að undanförnu. Hann flytur okkur nærri daglega hamingjufréttir um kínverskt álver á Íslandi og annað í þeim dúr. Hann virðist ekki vita, að í Kína er siður, að menn segi já, er þeir meina nei.

Utanríkisþjónusta hefur hagnýtt gildi að því marki sem hún gætir hagsmuna Íslands og fylgir þeim fram í stofnunum á borð Evrópusambandið og Efnahagssvæðið í viðskiptum og Atlantshafsbandalagið, Öryggisráðstefnuna og Norðurlandaráð í pólitískum samskiptum.

Það hefur ekkert hagnýtt gildi fyrir Íslendinga, að forsetinn og utanríkisráðherrann séu að nudda sér utan í blóði drifna ráðamenn Kína. Ekki gagnaðist mönnum að nudda sér utan í ráðamenn Sovétríkjanna á sínum tíma. Og ekki hefði gagnast þeim að nudda sér utan í Hitler.

Friður, vinátta og viðskipti í skálaræðum eru leikur þotuliðs stjórnmálanna og kemur ekkert við þeim kalda veruleika, sem fær fólk til að setja úrslitakosti.

Jónas Kristjánsson

DV