Þrælahald flutt inn

Greinar

Technopromexport er rússneskt ríkisfyrirtæki, sem hvergi starfar á Vesturlöndum, nema hér og í Grikklandi, þar sem fjármálaspilling er mikil samkvæmt nýlegri fjölþjóðaúttekt. Félagið starfar í nokkrum löndum þriðja heimsins, þar sem mannréttindi eru lítil.

Landsvirkjun ber alla ábyrgð á þessu fyrirtæki. Af tilboði þess í framkvæmdir hér á landi mátti strax ráða, að það mundi nota rússneska þræla í stað íslenzkra starfsmanna til þess að ná verkinu. Með því að taka tilboðinu tók Landsvirkjun á sig ábyrgð af þessu.

Starf fyrirtækisins á vegum Landsvirkjunar felur í sér tilraun íslenzka samstarfsaðilans til að ná niður virkjunarkostnaði hér á landi með því að brjóta á bak aftur löggilda kjarasamninga. Það skýrir, hversu dauflega Landsvirkjun hefur tekið á málinu.

Síðan hefur bætzt við samábyrgð lélega mannaðra eymdarstofnana á borð við heilbrigðiseftirlitið á Suðurlandi og vinnumálaeftirlit félagsmálaráðuneytisins. Þessar stofnanir hafa horft á hneykslið magnast án þess að manna sig upp í að gera neitt af viti í málinu.

Framganga og fullyrðingar fulltrúa hinna rússnesku verktaka hér á landi hafa verið með slíkum endemum, að fyrir löngu hefði verið búið að reka þá úr landi annars staðar á Vesturlöndum. Hér hanga þeir hins vegar í skjóli máttvana og örvasa ríkisstofnana.

Opinberi geirinn hefur reynzt gersamlega ófær um að gæta laga og réttar við þetta verk. Það var eingöngu fyrir hatramma framgöngu nokkurra verkalýðsfélaga, að upplýstar hafa verið skuggahliðar á vanheilögu hjónabandi Landsvirkjunar og Technopromexport.

Eftir að ótal yfirlýsingar fulltrúa rússneska fyrirtækisins hér á landi hafa ekki reynzt hafa við rök að styðjast, er félagsmálaráðherra enn að tuða um, að hann hafi ekki ástæðu til að vantreysta mönnunum. Þessi yfirlýsing hans er auðvitað mesta fjarstæða.

Nánast öll verktaka í Rússlandi og fylgiríkjum þess er rekin á mafíugrunni eins og raunar mestur hluti atvinnulífsins þar eystra. Þessi mafíukapítalismi, sem tók við af gamla ríkisrekstrinum, hefur á örskömmum tíma rúið þessa fjölmennu þjóð inn að skinni.

Gjaldþrot blasir við verktökum í Rússlandi um þessar mundir, af því að ríkið getur ekki lengur borgað neitt. Technopromexport er því í samstarfi við einkafyrirtækið Elektrosevkavmontaj um lagningu Búrfellslínu. Þetta verk er liður í að ná fótfestu í auðugum ríkjum.

Ódýrir þrælar eru það eina, sem þessi fyrirtæki hafa að bjóða umfram vestræn fyrirtæki, svo sem fram hefur komið hér á landi. Ef þrælahöldurum tekst að ryðjast inn á íslenzkan markað í skjóli ódýrs vinnuafls, er búið að brjóta löglega kjarasamninga á bak aftur.

Við þurfum að læra af þessari reynslu eins og annarri. Við þurfum framvegis að hafa gætur á stjórnendum Landsvirkjunar, sem hafa haldið verndarhendi yfir mafíósum í gleði sinni yfir að geta sniðgengið kjarasamninga til að ná niður virkjunarkostnaði.

Við höfum við búið við næg vandræði af hálfu Landsvirkjunar, svo sem eyðingu náttúruverðmæta til að geta selt niðurgreidda orku til stóriðju á kostnað almennings, þótt ekki bætist við, að þessi óvinveitta einkaleyfisstofnun reyni að brjóta niður löglega kjarasamninga.

Mál þetta hefur gefið bláeygum Íslendingum örlitla innsýn í skuggalega harmaveröld rússnesks þrælahalds, sem við megum alls ekki flytja inn í landið.

Jónas Kristjánsson

DV