Þrælahald nútímans

Greinar

Nútímamaðurinn er ekki fremur sjálfs síns herra en forfeður hans voru fyrr á öldum. Frelsi lýðræðisaldar hefur reynzt hálla en menn sáu fyrir, þegar komið var á fót formum og mynztrum, sem áttu að gera alla að frjálsum mönnum, fullgildum borgurum lýðræðisríkja.

Þrælahald nútímans kemur fram í ýmsum myndum. Algengast er, að fólk láti stjórnast af áreiti úr umhverfinu í stað þess að láta stjórnina koma að innan. Fólk er til dæmis afar háð því, hvað umhverfið telur vera rétta tízku í vöru- og þjónustunotkun á hverjum tíma.

Beztu dæmin um varnarleysi alls almennings er hin gífurlega sala, sem oftast er á jólavertíð í einhverju fáránlegu galdratæki, sem fólki er í auglýsingum talin trú um, að það geti alls ekki verið án. Fótanuddtæki og ennisþrýstibönd voru fræg dæmi af þessu undarlega tagi.

Fólk gengur í vörumerktum klæðnaði til þess að auglýsa stuðning sinn við vörumerkið og njóta mola af borði ímyndarinnar, sem það telur fylgja merkinu. Þannig finnst sumum þeir vera næstum naktir, ef þeir eru ekki í gallabuxum af ákveðinni og áberandi merktri tegund.

Ímyndir eru mikilvægur áhrifavaldur í umhverfinu. Með auglýsingum er reynt að búa til ákveðnar ímyndir eins og til dæmis af kúrekahetjum, sem eru að reykja í sig krabbamein af hetjuskap. Þessar ímyndir síast inn í fólk, af því að það stjórnar sér ekki sjálft.

Fólk hefur að mestu látið af þátttöku í stjórnmálum, en mætir í kjörklefann á nokkurra ára fresti til að játa undirgefni sína við ímyndir, sem komið hefur verið á framfæri af atvinnumönnum og eru í alls engu samhengi við neinn veruleika. Fólk kýs í blindni og leiðslu.

Kvikmyndir og sjónvarpsþættir og leiknar auglýsingar eiga mikinn þátt í að búa til ímyndir, sem mikill fjöldi fólks lætur stjórnast af. Engin innri stjórn kemur til mótvægis til að tempra hughrifin af þessum umhverfisáhrifum, sem menn elta meira eða minna í blindni.

Alls konar fíknir eiga auðveldan leik í þessari einhliða skák. Mikill hluti fólks hefur ánetjast tóbaki og á afar erfitt með að losna úr þeirri ánauð. Sykurfíkn er orðin svo algeng, að ný matvara er tæpast sett á markað öðru vísi en svo, að hún sé rækilega sykurblönduð.

Til dæmis er allt pakkað morgunkorn á íslenzkum markaði sykurblandað, svo og allar nýjar mjólkurvörur, þar á meðal vörur, sem kenndar eru við skóla. Þannig eru börnin vanin á sykurfíkn á unga aldri og gerð að þrælum efnisins. Af þessu leiðir löng röð sjúkdóma.

Fólk er ekki eingöngu fíkið í efni á borð við áfengi og tóbak, sykur og hass, heldur einnig í hegðunarmynztur, svo sem kynlíf og spilakassa. Öll magnast þessi hegðun, af því að innri stjórn fólks ræður ekki við margvíslegt áreiti, sem það verður fyrir frá umhverfinu.

Þrældómur nútímamannsins í þágu ímyndana og ytra áreitis kostar gífurlega fjármuni og vansælu. Ímyndirnar og áreitið hafa tilhneigingu til að kosta miklu meira en fólk hefur ráð á að borga, svo að ekki sé talað um hamslausa fjárþörf fíknanna. Lífið verður að stigmyllu.

Unnt væri að hamla gegn þessu, ef þjóðfélagið áttaði sig á, að verkefnið er mikilvægara en lestur, skrift og reikningur. Ef tekin væri upp í skólum landsins neytendafræðsla og aukin þar borgaraleg fræðsla, væri unnt að fá marga til að komast undan hlutverki þrælsins.

Til lengdar fær núverandi þjóðskipulag ekki staðizt, nema endurvakinn verði hinn frjálsborni borgari, sem átti að vera hornsteinn þess og kjölfesta.

Jónas Kristjánsson

DV