Þráhyggja þéttingar

Greinar

Ekki voru undirskriftir 35.000 Reykvíkinga fyrr búnar að stöðva byggingu skrifstofu- og bíóhúss í Laugardal en borgarstjórn er farin að gæla við hugmyndir um byggingu menntaskóla á svæðinu. Þannig er ekkert lát á þráhyggju borgaryfirvalda, þótt skoðun borgarbúa sé ljós.

Með undirskrift sinni mótmæltu 35.000 Reykvíkingar hvers kyns óskyldri starfsemi í Laugardalnum, ekki aðeins skrifstofum og bíói, heldur öllu því, sem takmarkar opna svæðið í Laugardal. Mótmælin gilda því einnig um nýju ráðagerðirnar um menntaskóla á svæðinu.

Er þráhyggja borgarstjórnar svo blind, að borgarbúar þurfi að mótmæla sams konar ráðagerðum á tveggja ára fresti? Er þessi þráhyggja skynsamlegt nesti borgarstjórans og meirihluta borgarstjórnar á leiðinni að næstu borgarstjórnarkosningum að einu ári liðnu?

Hugmyndir um menntaskóla á opna svæðinu í Laugardal stafa eins og aðrar slíkar hugmyndir af, að byggð hefur verið skipulögð of þétt í borginni. Skipulagsmenn borgarinnar renna hýru augu til opinna svæða til að létta á þrýstingi vegna fyrri mistaka þeirra sjálfra.

Við sjáum slík mistök sums staðar við mislæg gatnamót, sem eru aðkreppt, af því að hús hafa verið skipulögð þétt við þau, til dæmis við Höfðabakkabrúna yfir Suðurlandsveg. Við vitum, að senn verður að rífa hús við Miklatorg vegna of þéttrar byggðar við torgið.

Ef ráðagerðir borgaryfirvalda um bryggjuhverfi við Ánanaust og Eiðisgranda verða að veruleika, mun koma í ljós, að rífa verður húslengjur við Hringbraut til að þjóna aukinni umferð vegna aukinnar byggðar. Nýr miðbær í Vatnsmýri mundi hafa enn skelfilegri áhrif.

Steypuvæðing opinna svæða er stundum varin með því, að borgarbúar noti þau ekki. Þannig er hugmynd um listaháskóla á Klambratúni varin með því, að fólk sé ekki mikið þar á ferli. En opin svæði hafa ekki aðeins útivistargildi, heldur eiga þau að auka svigrúm og víddir.

Raunar er steypuvæðing Skeifu og Fenja bein ástæða of lítillar útivistar í Laugardalnum. Með þessum hverfum hefur dalurinn verið klipptur úr eðlilegu sambandi við útivist í Skerjafirði, Fossvogi, Elliðaárdal og Heiðmörk. Þétting byggðar í Blesugróf olli svipuðum skaða.

Þótt bezt sé að gera strax í fyrsta skipulagi ráð fyrir endanlegum nýtingarstuðlum, getur þétting byggðar verið gagnleg við sérstakar aðstæður. Til dæmis eru áhugaverðar hugmyndir um svipmikil háhýsi við Skúlagötu, enda virðist umferðarsvigrúm vera gott við ströndina.

Sumir vilja búa þröngt að evrópskum hætti, en aðrir vilja búa dreift að amerískum hætti. Borgin á að hafa misjafna nýtingarstuðla og þjóna báðum sjónarmiðum í senn. Þráhyggja í áherzlu á annað sjónarmiðið á kostnað hins má ekki vera í andstöðu við borgarbúa sjálfa.

Dreifð byggð gerir gatnakerfið og almenningssamgöngur dýrari en ella, en það eru ekki einu hagsmunirnir, sem skipta máli í samanburði þéttrar og dreifðrar byggðar. Borgarbúar þurfa líka svigrúm og græn lungu í umhverfinu, hvort sem þeir stunda útivist eða ekki.

Nóg pláss verður fyrir alla þjóðina á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesskaga, þegar hún hefur náð hámarksfjölda. Reykjavík er ekki skylt að taka við fastri hlutdeild af íbúafjölgun svæðisins. Sveitarfélög á jaðarsvæðum byggðar geta tekið aukinn hlut í fjölguninni.

Sífelldar hugdettur borgarstjórnar og skipulagsfólks um þéttingu byggðar eru fyrir löngu orðnar að þráhyggju, sem sumpart stríðir gegn yfirlýstum vilja borgarbúa.

Jónas Kristjánsson

DV