Þráhyggja um þétta byggð

Greinar

Stjórnendur skipulags höfuðborgarsvæðisins ganga enn með þá meinloku, að þétta þurfi byggð. Samt eru þéttingarslys fyrir allra augum. Nýleg hús hefta þróun Reykjanesbrautar. Mislæg gatnamót við Höfðabakka- og Skeiðarvogsbrýr varð að hanna í keng af sömu ástæðu.

Byggð höfuðborgarsvæðisins er of þétt, en ekki of strjál. Hún liggur til dæmis of þétt að brautunum, sem voru orðnar yfirlýstar meginæðar höfuðborgarsvæðisins löngu áður en byggt var ofan í þeim. Skipuleggjendur skortir svigrúm til að leiðrétta fyrri mistök sín.

Af svipuðum toga er krafa Sjálfstæðisflokksins um, að Geldinganes verði ekki tekið frá til hafnargerðar, þar sem ekki verði þörf á viðbótum við höfnina næstu tvo til þrjá áratugina. Samt er vitað, að saman eru Eiðsvík og Geldinganesið eina náttúrulega höfnin á svæðinu.

Auðvitað ber borginni að gera ráð fyrir Eiðsvík sem eðlilegu framhaldi hafnarinnar í Kleppsvík og taka Geldinganes frá fyrir hafnarstarfsemi. Ef það verður ekki gert, þarf að gera það annars staðar með miklu meiri tilkostnaði og alls ekki minni strandlengjuspjöllum.

Raunar er sérkennilegt, að það skuli vera framlag stjórnarandstöðunnar í Reykjavík til skipulagsmála borgarinnar að frekar skuli byggja höfn við Álfsnes, þar sem eru fágætar leirur, sem ber að varðveita, en alls ekki moka upp með ærnum og óþörfum tilkostnaði.

Með Kleppsvík og Eiðsvík er vel séð fyrir hafnarþörf Reykjavíkur alla næstu öld. Stutt er í stórskipahafnir í Straumsvík og á Grundartanga. Höfuðborgarsvæðið verður hvort sem er búið að tengja anga sína norður og suður fyrir þær hafnir á fyrstu áratugum aldarinnar.

Svo langt gengur þráhyggjan um þéttingu byggðar, að myndað hefur verið sérstakt hugsjónafélag um að byggja turnhýsi í Vatnsmýri og úti í sjó fyrir Örfirisey. Þessar hugmyndir eru ávísun á umferðaröngþveiti á Miklubraut og aukna þörf fyrir nýjar brautir úti í sjó.

Ágætt er að hafa þétta byggðarpunkta á nokkrum stöðum, einkum í fyrirhuguðum byggðakjörnum höfuðborgarsvæðisins. Sambyggð verzlunar- og þjónustusvæði undir íbúðaturnum gera mörgum kleift að fara flestra sinna ferða í góðu skjóli fyrir veðri og vindum.

Höfuðborgarsvæðið þarf að geta boðið íbúum sínum þennan búsetukost, sem hentar mörgum, um leið og það býður líka upp á strjálli byggð, sem hentar öðrum. Og það er ódýrara að þétta strjála byggð en að rífa þétta byggð, ef þarfir svæðisins breytast á löngum tíma.

Höfuðborgarsvæðið hefur gott svigrúm til vaxtar og þarf ekki að þétta byggðina umfram eðlilegar þarfir fyrir þétta byggð. Reykjavík hefur aðgang að miklu byggingarlandi á Álfsnesi og Kjalarnesi og Hafnarfjörður ekki síðri aðgang að landi allt suður fyrir Straumsvík.

Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu, að byggðin á suðvesturhorninu verði um síðir eins og perlur á festi, allt frá Reykjanesbæ í Borgarnes, svo framarlega sem fjarlægðin frá Kvosinni í Reykjavík til endimarkanna verði ekki meiri en klukkutími á góðri hraðbraut.

Náttúrulegar aðstæður kalla á perlufestarbyggð á þessu svæði. Ekki er hægt að byggja inn í land vegna vatnsbúskapar og veðurfars. Þess vegna ber að fara varlega í ráðagerðir um að byggja inn á Hólmsheiði. Betra er að nýta fegurð og andrými strandlengjunnar.

Þráhyggja um þéttingu byggðar hefur þegar takmarkað skipulagskosti og valdið miklum framkvæmdakostnaði. Þessari þráhyggju má gjarna fara að linna.

Jónas Kristjánsson

DV