Þrátt fyrir allt…

Greinar

Að loknu enn einu þingi Norðurlandaráðs má vekja máls á spurningunni, hvort Ísland eigi heima í félagsskap Norðurlanda, hvort við höfum utan veizluhalda eitthvað þaðan að sækja og jafnvel annað þangað að leggja.

Halldór Laxness talar tæpast nema í hálfri alvöru, þegar hann sagði nýlega í blaðaviðtali, að í bókmenntum hefði Ísland ekkert til Norðurlanda að sækja. Það væri mörg hundruð árum á undan þeim og bæri sig saman við stórveldin.

Þetta fer saman við þá útbreiddu skoðun íslenzkra sjónvarpsnotenda, að norrænt menningarefni sé fremur hvimleitt, enda framleitt í þjóðfélagi, þar sem listamenn séu launaðir embættismenn fremur en kaupmenn á markaði.

Nýlega heyrði leiðarahöfundur íslenzkan blaðamann, sem búsettur var ytra, segja norrænum starfsbræðrum, að sjónvarp þeirra væri jafnvel ennþá leiðinlegra en hið íslenzka. En þeir virtust ekki skilja vandann.

Annað útbreitt sjónarmið hér á landi er, að Norðurlönd hafi farið offari í félagsmálum. Danir séu þegar búnir að sliga sig á sósíalismanum og Svíar komi í humátt á eftir. Atvinnulífið standi ekki undir yfirbyggingunni.

Síðast en ekki sízt er því haldið fram hér á landi, að mismunur íslenzkra og norskra blóðflokka, svo og samræmi íslenzkra og írskra sanni vísindalega, að Íslendingar séu ekki einu sinni líkamlega grein af norrænum meiði.

Í öllu þessu og ýmsum öðrum efasemdum er hluti af sannleika, en ekki hann allur. Rekja má önnur dæmi, sem benda til, að Ísland sé lifandi þáttur Norðurlanda, hafi áður og muni enn hafa gagn af tengslum við þau.

Varla er til það félag á landsvísu, sem ekki er í tengslum við systurfélög á Norðurlöndum. Af þessum félagsskap um einstök áhugamál hefur myndazt fjörlegur samgangur, sem í mörgum tilvikum hefur leitt til vináttu.

Enginn vafi er á, að vináttutengsl Íslendinga við útlendinga eru meiri til Norðurlanda en til afgangsins af heiminum. Fremur en allt annað er þetta mælikvarði á, hvort Ísland sé eða sé ekki eitt Norðurlandanna.

Ekki er heldur vafi á, að lagasetning okkar og stjórnkerfi dregur mjög dám af Norðurlöndunum. Sum lög okkar eru nánast þýðingar úr málum þeirra. Og þjóðskipulag okkar í heild er byggt á sameiginlegum grunni Norðurlanda.

Við höfum haft og munum enn hafa gagn og gleði af þessu samstarfi. Þar með er ekki nauðsynlegt, að við gleypum hrátt allt, sem frá Norðurlöndunum kemur. Við getum líka lært að vara okkur á neikvæðri reynslu þeirra.

Sérstaklega er varasöm sú hugsun, að einstaklingurinn sé fruma í líkama, að hann sé ekki sinnar gæfu smiður, heldur eigi hann kröfu til viðurværis af hálfu hins opinbera, hvort sem hann er listamaður eða eitthvað annað.

Við megum ekki láta félagsmálin sliga atvinnulífið, ofgera verðmætasköpuninni í þjóðfélaginu. Og við megum ekki heldur telja, að Norðurlöndin séu einhver þungamiðja heimsins í listum og bókmenntum.

Að þessum fyrirvörum töldum, getum við snúið okkur heils hugar að norrænni samvinnu. Við höfum margt til Norðurlanda að sækja og getum ef til vill lagt eitthvað á móti. Þegar til kastanna kemur, eru þetta okkar vinaþjóðir.

Jónas Kristjánsson.

DV