Þrautþjálfaðir í mótmælum

Ferðir

Ryanair er frægt fyrir ruddalega hegðun gagnvart farþegum. Andskotinn hitti þó ömmu sína, þegar farþegarnir voru franskir. Slíkir farþegar éta ekki það, sem úti frýs, heldur sameinast um að mótmæla. Eins ólíkir Íslendingum og hægt er að vera. Létu ekki segja sér að fara úr flugvél í Belgíu, þegar áætlunin hljóðaði upp á lendingu í Beuvais í Frakklandi. Eftir fjögurra tíma mótmælasetu í flugvélinni náðist loks samkomulag. Þið munið harðskeytt mótmæli við hækkun eftirlaunaaldurs í Frakklandi. Þar er fólk þrautþjálfað í mótmælum, enda fundu Frakkar upp borgaralegar byltingar. Fólk með reisn.