“Mér finnst hins vegar ánægjulegast, að í 78% tilvika er innkaupsverð okkar gott”, sagði framkvæmda stjóri Félags stórkaupmanna í blaðaviðtali um helgina. Vísar hann þar til samanburðar, sem Verðlagsstofnun gerði á matvöruverði í Reykjavík og Glasgow. Þar kom í ljós, að innkaupsverð íslenzkra heildsala var í 22% tilvika hærra en verð út úr verzlunum í Glasgow.
Vonandi er framkvæmdastjórinn eini maðurinn í landinu, sem er ánægður með þessa prósentu. Hún er því miður allt of há og gefur tilefni til gagnaðgerða. Í sömu könnun kom í ljós, að í 55% tilvika var innkaupsverð íslenzkra stórkaupmanna hærra en verð frá starfsbræðrum þeirra í Glasgow. Full ástæða er, að málsaðilar kanni, hvernig í ósköpunum stendur á þessum óhagstæðu tölum, en leggist ekki í sæluvímu.
Að minnsta kosti einn íslenzkur heildsali tók harkalega við sér, er könnun Verðlagsstofnunar sýndi, að innkaupsverð einnar vöru hans var hærra en smásöluverð í Glasgow. Hann sendi framleiðandanum strax skeyti og bað um skýringu á hinum mikla verðmun.
Vonandi gera aðrir stórkaupmenn slíkt hið sama í stað þess að taka mark á drýldni framkvæmdastjóra félags þeirra. Markmið aukins verzlunarfrelsis er, að neytendur hagnist. Ef þeir njóta ekki aukins frelsis síðustu ára, eru í mysunni maðkar, sem útrýma þarf.
Könnun Verðlagsstofnunar sýndi, að matvöruverð í Reykjavík var nærri þrefalt hærra en í Glasgow. Í einu tilviki komst verðið í Reykjavík upp í að vera sexfalt Glasgow-verð. Þetta var rétt túlkað af Verðlagsstjóra og af fjölmiðlum, sem sögðu agndofa þjóð frá þessu.
Engin ástæða er fyrir verðlagsstjóra að taka mark á kvörtunum heildsala um rangtúlkun. Ekki er heldur ástæða til, að félag þeirra fái framvegis að skoða niður stöður hans, áður en þær eru sendar fjölmiðlum. Slíkt lyktar af ritskoðun af hálfu eins skálksins í málinu.
En skálkarnir eru fleiri, meðal annars hinir erlendu framleiðendur, sem hlunnfara íslenzka stórkaupmenn og íslenzka alþýðu um leið. Meiri og ítarlegri samanburður af hálfu Verðlagsstofnunar á að geta beint kastljósi að slíkum tilvikum og útrýmt þeim snarlega. Einn versti skálkurinn er íslenzka ríkið sjálft. Það leggur þung gjöld á innfluttar vörur. Ennfremur meinar það stórkaupmönnum að þiggja erlenda vörukrít, sem mundi gera þeim kleift að kaupa inn í stærri skömmtum og ná lægra einingaverði, neytendum til hagsbóta.
Verst er, að sérhver álagning leggst ofan á þær, sem fyrir eru. Fyrst taka heildsalar prósentur í formi umboðslauna. Síðan leggur ríkið gjöld sín, ekki bara á vöruverðið, heldur einnig á umboðslaun og flutningskostnað. Þannig er hægt að tvöfalda verðið.
Næst kemur svo heildsalinn, sem leggur nýja prósentu, ekki aðeins ofan á kaupverð vörunnar, heldur einnig ofan á umboðslaun sín, flutningskostnað og opinberu gjöldin. Loks leggur smásalinn sína prósentu ofan á allt hið sama og ofan á prósentu heildsalans að auki.
Þannig getur vítahringurinn endað með, að smásöluálagningin ein er orðin fyrirferðarmeiri í vöruverðinu hér innanlands en upprunalegt verð vörunnar frá framleiðanda. Vinda þarf ofan af þessum vítahring.
Þjóðhagslega og lífskjaralega er mikilvægast, að nota athuganir á borð við þessa sem tæki til að ná lægra verði frá erlendum framleiðendum. Þannig verður unnt að spara þjóðinni háar fjárhæðir á degi hverjum.
Jónas Kristjánsson
DV